Hringskyrfi greint á bæ í Eyjafirði

Hringskyrfi hefur verið staðfest á bæ í Eyjafirði. Um var að ræða einn blett á einum nautgrip sem héraðsdýralæknir og eftirlitsdýralæknir komu auga á í sláturhúsi. Héraðsdýralæknir skoðaði í kjölfarið alla gripi á bænum er fann engin sjáanleg einkenni. Fyrirskipaðar hafa verið varúðarráðstafanir til að hindra smitdreifingu og dýralæknum og fleiri aðilum í Eyjafirði tilkynnt um málið. Landbúnaðarstofnun hefur lagt til við landbúnaðarráðuneytið að það fyrirskipi víðtækari aðgerðir til að hindra útbreiðslu og útrýma sjúkdómnum á grundvelli laga um dýrasjúkdóma og hefur lagt fram ákveðnar tillögur í því tilliti.


Samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma getur landbúnaðarráðherra að fengnum tillögum Landbúnaðarstofnunar fyrirskipað hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að útrýma eða hindra útbreiðslu þeirra dýrasjúkdóma og til að afstýra hættu og tjóni af völdum útbreiðslu þessara sjúkdóma.

Hringskyrfi er smitandi húðsjúkdómur í búfé sem orsakast af sveppum (Tricophytus verrucosum). Oft smitast fólk af sjúkum dýrum og myndast hárlausir blettir á líkama sjúklings en einnig fylgir kláði smitinu.

Hringskyrfi hefur aðeins greinst í fáein skipti hér á landi, árið 1933 í Þerney, 1966 á Grund í Eyjafirði og  1987 á Mið-Grund í Vestur-Eyjafjallahreppi. Bæði í Eyjafirði og undir Eyjafjöllum barst smitið á marga bæi þrátt fyrir varúðarráðstafanir. Að lokum tókst þó í öllum tilfellum að útrýma smitinu með róttækum aðgerðum. Góða umfjöllun um þetta er að finna í grein eftir Pál Agnar Pálsson í Dýralæknatalinu, sem Dýralæknafélag Íslands gaf út 2004.


Þetta nýja tilfelli er sérstakt að því leyti að aðeins fannst blettur á einum grip. Samt sem áður er nauðsynlegt að fylgjast vel með búinu og tryggja eins og mögulegt er að smit berist ekki víðar. Eins og kunnugt er geta sveppagróin lifað lengi í umhverfinu þannig að viðhalda verður smitvörnum í langan tíma.


Menn er beðnir að vera vel á verði gagnvart einkennum sem gætu bent til hringskyrfis og tilkynna grun án tafar til viðkomandi héraðsdýralæknis.


back to top