Hugið að aldri og skráningu nautgripa fyrir slátrun
Matvælastofnun hefur birt á heimasíðu sinni ábendingu til bænda um að gæta að aldursmörkum nautgripa varðandi kjötmat. Einkum á þetta við um ungneytakjöt, þ.e. af nautum, uxum og kvígum á aldrinum 12-30 mánaða, en einnig um kýr.
Í ábendingunni er minnt á að samkvæmt kjötmatsreglugerðinni (nr. 882/2010) flokkast naut og uxar, eldri en 30 mánaða, sem bolakjöt (merktir Vinnslukjöt N) og kvígur sem kýr (KI U: vel holdfylltir skrokkar af 30-48 mánaða gömlum kúm eða í K-flokka eftir holdfyllingu og fitu).
Flokkun nautgripakjöts eftir aldri og kyni er þessi:
MK, UK: ungkálfakjöt (yngri en þriggja mán.)
AK: alikálfakjöt (þriggja til tólf mán.)
UN:Ungneytakjöt(naut, uxar, kvígur) 12-30 mán.
N: Bolakjöt (naut og uxar eldri en 30 mán.)
KI U: ungkýr, 30-48 mán. (vel holdfylltar)
K: kýr, eldri en 30 mán.
Aldur nautgripa er gefinn upp í mánuðum í reglugerðinni og því er miðað við heilan mánuð við að ákvarða aldur. Gripur sem fæðist í maí 2010 telst 24 mánaða til maíloka 2012 og 30 mánaða til nóvemberloka 2012. Frá og með 1. desember 2012 getur hann ekki flokkast sem ungneyti (UN).
Einstaklingsmerking nautgripa hefur í för með sér að aldur sláturgripa liggur ljós fyrir og er ekki lengur matsatriði eftir beinmyndun í brjóski á hátindum brjósthryggjarliða og útliti skrokks að öðru leyti. Opið aðgengi er á www.huppa.is að grunnupplýsingum, þar á meðal fæðingardegi, um nautgripi eftir einstaklingsnúmerum. Kjötmatsmenn nýta sér það og ber að sjálfsögðu að fara eftir þeirri skráningu. Að sama skapi geta starfsmenn í kjötvinnslum sannreynt aldur sláturgripa við móttöku skrokka.
Þeirri ábendingu er því komið á framfæri við framleiðendur að fylgjast með aldri gripa sinna og áætla sláturtíma í samræmi við ofangreind aldursmörk.
Sjálfsagt er að taka undir þetta og má jafnframt benda á hversu mikið verðfall verður á ungnautum við 30 mánaða aldur. Verð á UNI A er á bilinu 592-616 kr/kg en verð á bolakjöti er á bilinu 412-425 kr/kg.
Um leið er rétt að benda mönnum á að ganga úr skugga um þeir gripir sem slátra á séu skráðir í Huppu áður en þeir sendir í sláturhús. Gripir sem ekki eru skráðir fá ekki heilbrigðisskoðun í sláturhúsi og kjötinu því hent án greiðslu til bónda. Þá tekur Búnaðarsambandið 5.000 kr. á grip fyrir svokallaða flýtiskráningu nautgripa, þ.e. skráningu gripa sem þegar eru komnir í sláturhús.