Hugmyndir formanns Samfylkingar hefðu alvarlegar afleiðingar

Hugmyndir Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, lækkun tolla á innflutt svína- og alifuglakjöt eru umdeildar svo ekki sé meira sagt. Ingibjörg sagði í ræðu á flokksstjórnarfundi flokksins 30. mars s.l. að hún teldi rétt að skoða þann kost að lækka verulega tolla á innflutt matvæli sem ekki teljast til hefðbundinslandbúnaðar, svo sem á fugla- og svínakjöt. „Það snertir hag bænda ekki nema óbeint en hefði veruleg áhrif á hag neytenda,“
sagði Ingibjörg.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja frá Hagstofu Íslands, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Bændasamtökum Íslands hefur formaður Samfylkingarinnar ekki kynnt sér málið til hlítar áður en hún lét ummælin falla. Á landinu eru nú 20 svínabú og árið 2005 töldust 90 manns vinna beint við svínarækt samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. Kjúklingabú á landinu eru 43 og töldust 80 manns vinna beint við kjúklingarækt árið 2005. Þá vinna 170 manns við slátrun og vinnslu alifuglakjöts samkvæmt gögnum Hagstofunnar frá 2005. Varðandi slátrun og úrvinnslu svínakjöts liggja ekki fyrir nákvæmar tölur um fjölda starfa en miðað við markaðshlutdeild er ekki óvarlegt að ætla að ríflega 400 hundruð manns vinni við þau störf. Samtals er þarna um að ræða 740 störf auk fjölmargra afleiddra starfa af greinunum.


Mjög alvarlegar afleiðingar
Í 24 stundum í dag er birt úttekt á þessari stöðu og þar er sagt að allir þeir sem 24 stundir ræddu við innan greinanna telji að ef tollar á svína- og fuglakjöt yrðu lækkaðir verulega myndi það hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir greinarnar. Ekki væri einnungis verið kippa fótunum undan framleiðslu svína- og alifuglakjöts heldur og einnig allri annarri kjötframleiðslu í landinu. Ekki væru forsendur til þess að halda úti kjötvinnslu og sláturhúsum ef framleiðsla á svínkjöti, kjúklingum og eggjum legðist af.


Haft er eftir Haraldi Benediktssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, í 24 stundum að miðað við gögn frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands muni verða 60-70% veltusamdráttur í íslenskri kjötframleiðslu. „Ef það gerist sjáum við ekki fram á að kjötvinnslur og sláturhús hafi bolmagn til að standast slíkt högg. Þetta er ekki lítill landbúnaður þrátt fyrir að búin séu kannski ekki mjög mörg. Þessar tvær búgreinar eru um það bil 55 prósent af íslenskum kjötmarkaði og svínakjöt
ber um þriðjung af veltu hjá sláturhúsunum.“


Þar segir Haraldur einnig af og frá að þessar greinar séu fámennisgreinar. „Þessar greinar skipta gríðarlega miklu máli í stærra samhengi. Það er til dæmis alveg ljóst að það yrði mjög erfitt að fá kjarnfóður á eðlilegu verði fyrir aðrar búgreinar ef þessi framleiðsla leggst af því að kjarnfóðurnotkun þessara greina er meira en helmingur af allri notkuninni.“


Byggð myndi leggjast af
Haraldur telur að það yrði gríðarlegt högg fyrir byggðir landsins ef þessar tillögur næðu fram að ganga. „Ég tel ljóst að við landbúnaður myndi leggjast af víða um land. Landbúnaður er uppistaðan í atvinnu í mörgum byggðum og ég er hræddur um að ef bændur myndu hrekjast úr sveitunum myndi fjöldi lítilla byggðarlaga hreinlega leggjast af.


back to top