Hugum að útigangi vegna jarðbannar og áramóta
Við bendum umráðamönnum útigangshrossa að huga að þeim en nú er víða jarðbönn vegna umtalsverðs fannfergis síðustu daga. Nauðsynlegt er að gefa útigangi við þessar aðstæður, sérstaklega fylfullum og/eða mjólkandi hryssum og ungviði. Útigangshross þurfa að vera í góðum holdum á þessum árstíma og hafa aðgang að skjóli og nægu fóðri.
Þar sem líður að áramótum með tilheyrandi flugeldum, ljósagangi og hávaða, er einnig ástæða til að benda umráðamönnum hrossa að bregðast við eins og kostur er. Mörg dæmi eru um að hross á útigangi hafi algerlega tryllst, brotist gegnum girðingar, flúið til fjalls og ekki fundist fyrr en löngu síðar oft illa útleikin. Sjálfsagt er ef möguleiki er á að hýsa hross á nýársnótt meðan mestu lætin ganga yfir.
Hjá þeim hrossum sem eru á húsi er gott að hafa útvarp í gangi og kveikt ljós hjá þeim en það dregur úr áhrifum hávaða og ljósblossa frá flugeldum. Þetta á að sjálfsögðu einkum við í hesthúsum í og nærri þéttbýlí. Þar sem ekki er kostur á að hýsa hross er eðlilegt að reyna að koma þeim í aðhald þar sem minnst ber á ljósblossum og hávaði frá flugeldum er hvað minnstur.