Hundruð milljóna til bænda?
Fjöldi fyrrverandi félagsmanna í Mjólkursamsölunni gæti átt rétt á auknum greiðslum úr séreignarsjóði samsölunnar. Fjárhæðirnar gætu hlaupið á tugum og jafnvel hundruðum milljóna.
Ólögmætar breytingar
Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. febrúar síðastliðinn í máli sem félagsbúið á Hálsi höfðaði gegn Auðhumlu, áður Mjólkursamsölunni. Forsaga málsins er sú að fjölda félagsmanna í Mjólkursamsölunni var gert að innleysa séreign sína í séreignarsjóði með breytingum á lögum félagsins árið 2002. Í dómi héraðsdóms segir að þær breytingar hafi verið ólögmætar og hafi valdið því að félagsbúið á Hálsi hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni enda hafi verið aukið verulega við fjármagn í séreignarsjóðinn, fyrst um 550 milljónir árið 2004 og aftur um 1,5 milljarða árið 2006.
Vildu ekki inleysa sína eign
Jón Gíslason, bóndi á Hálsi, segist fagna dómnum. „Við köllum þetta ippon-dóm því það er allt dæmt okkur í vil. Ákvörðunin er dæmd ólögleg og þar með erum við ennþá aðilar að félaginu og eigum að okkar mati fulla aðild að öllum þeim fjármunum sem hafa bæst í sjóðinn með aukningu á stofnfénu. Við vildum aldrei innleysa okkar séreign á þessum tíma enda vissum við eins og allir að stefnan væri sú að auka fjármagn í sjóðnum. Þessir fjármunir voru svo sannarlega til komnir vegna okkar viðskipta ekki síður en annarra.“
Býðst til að innheimta
Sigurbjörn Magnússon hæstaréttarlögmaður sem sótti málið fyrir búið á Hálsi segir málið vera fordæmisgefandi fyrir alla bændur sem eru í samsvarandi stöðu. „Þessi dómur þýðir að allir þeir félagar sem voru tilneyddir til að innleysa séreign sína úr sjóðnum og urðu með því fyrir fjárhagslegu tjóni, eiga rétt á sömu aukningu á sinni séreign og þeir sem áfram voru aðilar að sjóðnum.“
Sigurbjörn segir ljóst að hundruð manna séu í þessari stöðu. „Ég fer með mál fyrir nokkra bændur sem eru í sömu stöðu og Jón. Það er ljóst að þessir aðilar eiga inni umtalsverðar fjárhæðir hjá Auðhumlu ef dómurinn stendur. Þær gætu í heildina numið einhverjum hundruðum milljóna. Ef þessi dómur verður staðfestur í Hæstarétti þá mun ég hafa samband við þá aðila og bjóðast til að innheimta fyrir þá þeirra inneign.“
Dómnum líklega áfrýjað
Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Auðhumlu, segir allar líkur á því að dómnum verði áfrýjað. Guðbrandur sagðist aðspurður ekki vita um hversu mikla fjármuni gæti verið að tefla ef dómurinn stendur. „Við vitum ekki hversu margir aðilar eru í þessari stöðu en þeir gætu verið nokkur hundruð. Hins vegar eiga sumir þeirra mjög lágar upphæðir í sjóðnum. Við höfum ekki farið yfir hversu miklar fjárhæðir getur verið um að ræða, enda erum við ósammála dómnum og bíðum bara og sjáum til.“
Í hnotskurn
Með breytingu á lögum Mjólkursamsölunnar árið 2002 fækkaði séreignarsjóðsfélögum úr 1346 í 769. Fyrir breytinguna var sjóðsfélögum heimilt að ávaxta eign sína í tíu ár eftir að þeir hættu að leggja inn afurðir í Mjólkursamsöluna. Áður hefur fallið dómur í máli gegn Auðhumlu sem sneri að sama máli. Sá dómur var ekki talinn fordæmisgefandi.