Innan við helmingur kvígnanna sæddar
Tekin hafa verið saman gögn úr skýrsluhaldskerfi nautgriparæktarinnar, Huppu, hvað sæðingar á kvígum varðar hér á Suðurlandi. Á árunum 2008-2010 voru settar á 11.650 kvígur til endurnýjunar á kúastofninum eða 3.883 á ári að meðaltali. Þetta er í takt við það að hver kýr endist í um 3 ár til jafnaðar. Af þessum 3.883 kvígum sem eru settar á hvert ár voru 1.848 sæddar á árinu 2010 og 1.669 á árinu 2011 eða 1.759 að meðaltali. Það þýðir að aðeins 45% kvígnanna eru sæddar. Að meðaltali voru sæddar kvígur á 176 búum af um 250 búum hér á Suðurlandi. Það voru því sæddar 10 kvígur á hverju búi til jafnaðar árin 2010 og 2011. Á nokkrum búum eru allar kvígur sæddar, á töluverðum hluta búanna hluti kvígnanna en á alltof mörgum búum eru kvígurnar ekki sæddar.
Mikill munur er milli sýslna hvað þetta varðar eins og sjá má í töflu 1.
Tafla 1. Yfirlit yfir sæðingar kvígna 2010-2011. | |||||
Sýsla | Meðalfjöldi ásettra kvígna á ári 2008-2010 | Meðalfjöldi sæddra kvígna á ári 2010-2011 | Hlutfall sæddra kvígna af ásettum | Meðalfjöldi búa með kvígusæðingar 2010-2011 | Sæddar kvígur per. bú á ári 2010-2011 |
A-Skaft. | 192 | 83 | 43% | 6 | 13,8 |
V-Skaft. | 326 | 88 | 27% | 21 | 4,3 |
Rang. | 1.331 | 441 | 33% | 56 | 7,9 |
Árn. | 2.034 | 1.147 | 56% | 93 | 12,3 |
Samtals | 3.883 | 1.759 | 45% | 176 | 10,0 |
Eins og glöggt sést er Árnessýsla eina sýslan þar sem meira en helmingur ásettra kvígna eru sæddar en hlutfallið er lægst í V-Skaftafellssýlu eða aðeins 27%.