Innfluttar matvörur hafa hækkað um 62,8% frá ársbyrjun 2007 – íslenskar búvörur um 22,2%

Innfluttar matvörur hafa hækkað í verði um 62,8% frá ársbyrjun 2007 þar til nú. Innlendar búvörur og grænmeti hafa hins vegar einungis hækkað um 22,2% á sama tímabili. Þetta kemur m.a. fram í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Alþingi í dag.

Spurt var um þróun vísitölu neysluverðs frá ársbyrjun 2007 þar til nú og hver þróunin hefði verið m.t.t. ýmissa vöruflokka, s.s. innfluttra vara, búvara og almennra matavara. Vísitala neysluverðs hefur hækkað frá ársbyrjun 2007 til mars 2010 um 35,3%.


Í svari efnahags- og viðskiptaráðherra kemur eftirfarandi fram:

– Á tímabilinu hafa innlendar vörur hækkað um 29,5%.

– Innfluttar vörur fyrir utan áfengi og tóbak hafa hækkað um 55,6%.

– Innlendar búvörur og grænmeti hafa hækkað um 22,2%. Í svari ráðherra segir að þessi liður í mælingum Hagstofu Íslands nái ekki til hreinna innlendra búvara og grænmetis og sé ekki aðgreindur í útreikningi eftir því hvort um innlenda eða innflutta vöru er að ræða. Því má álykta að inni í þessum tölum sé einhver innflutt búvara sem trúlega hækkar vísitöluna frekar en lækkar.

– Aðrar innlendar matvörur, þar sem fram kemur verðþróun helstu vöruflokka, hafa hækkað um 35,6%. Hagstofan birtir ekki nánari sundurliðun varðandi þennan lið.
– Innfluttar matvörur hafa hækkað um 62,8%.


Í umfjöllun Ríkisútvarpsins á dögunum um þróun matvælaverðs var því haldið fram að matur hefði hækkað í verði um 36% á síðustu tveimur árum og vitnað í athugun Alþýðusambands Íslands. Þar var einnig minnt á að kaupmáttur launa hefði rýrnað um átta og hálft prósent frá falli bankanna.


back to top