Íslensk stjórnvöld verða að setja fram skýr samningsmarkmið

Bændasamtökin hafa sent frá sér fréttatilkynningu vegna rýniskýrslu Evrópusambandsins um landbúnaðarmál og dreifbýlisþróun. Í bréfi sem ESB sendi til íslenskra stjórnvalda kemur fram að Ísland er ekki nægilega undirbúið til þess að opna samningakafla um landbúnaðarmál í aðildarviðræðunum við sambandið.
Bændasamtökin halda því fram að þetta sýni glögglega að ESB krefjist þess að Ísland aðlagi lagasetningu, stjórnkerfi og upplýsingakerfi þannig að þau uppfylli kröfur ESB á sama tíma og verið er að vinna að aðildarsamningi. Með þessu sé ljóst að íslensk stjórnvöld geti ekki lengur vikið sér frá því að setja fram skýr samningsmarkmið um landbúnaðarmál í viðræðunum við ESB.
Tilkynning BÍ hljóðar svo í heild sinni:

„Evrópusambandið hefur nú tilkynnt íslenskum stjórnvöldum að Ísland sé ekki nægilega búið undir samninga um landbúnaðarmál í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Í bréfi ESB frá 1. september 2011 segir efnislega að Evrópusambandið telji að ekki sé hægt að taka upp samningaviðræður á þessu sviði fyrr en íslensk stjórnvöld uppfylli ákveðin skilyrði. Farið er fram á að lögð sé fram tímasett vinnuáætlun sem kveði á um hvernig Ísland hyggist verða að fullu reiðubúið til þess að njóta þess ávinnings og axla þær skyldur sem af aðildarsamningi leiða á fyrsta degi aðildar. Vinnuáætlunin skuli lýsa nánar hvernig Ísland muni undirbúa sig fyrir innleiðingu löggjafar, koma á fót stofnunum og öðrum kerfum sem samrýmast löggjöf Evrópusambandsins.


Að mati BÍ kemur hér glögglega í ljós að ESB krefst þess að Ísland aðlagi lagasetningu, stjórnkerfi og upplýsingakerfi sín þannig að þau uppfylli kröfur ESB á sama tíma og verið er að vinna að aðildarsamningi. ESB muni krefjast fullvissu þess að Ísland hafi stjórnsýslulega getu til að hrinda landbúnaðarstefnu ESB í framkvæmd og sýni það í verki. Þetta hafa embættismenn ESB einnig sagt fulltrúum BÍ með skýrum hætti.


BÍ hafa krafist þess að settar yrðu fram skýrar lágmarkskröfur í viðræðum stjórnvalda um aðild að ESB. Hafa Bændasamtökin jafnframt sett fram af sinni hálfu ítarlega lýsingu á þessum lágmarkskröfum sem liggja fyrir opinberlega. Ljóst er að aðlögun að landbúnaðarstefnu ESB (CAP) samkvæmt ofangreindu gengur þvert á þessar kröfur BÍ og er því ósamrýmanleg þeim. Bændasamtökin hafa ítrekað spurt um samningsafstöðu íslenskra stjórnvalda en engin svör fengið.


Bændasamtök Íslands telja að með fyrrgreindu bréfi ESB sé málum nú þannig komið að íslensk stjórnvöld geti ekki lengur vikið sér undan því að setja fram skýr samningsmarkmið í samningsviðræðunum við ESB um landbúnaðarmál. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur tekið undir lágmarkskröfur BÍ. Bændasamtökin telja að aðeins með þær að leiðarljósi verði hagsmunum íslensks landbúnaðar gætt eins og lýst er í ályktun Alþingis. Aðlögun að stjórnsýslu og löggjöf ESB verði að vinnast í þessu ljósi.“


back to top