Íslenska kýrin: Sérstakt erfðavísasafn

Hvað er svona sérstakt við íslensku kúna? er spurning sem margir hafa velt fyrir sér eftir að umræðan um innflutning á erlendu kúakyni til kynbóta þess íslenska fór aftur á fullt skrið í síðustu viku. Eins og með íslenska hestinn og sauðféð hefur þetta kyn haldist nánast óblandað frá landnámi en kýrin kom með landnámsmönnum frá Noregi fyrir rúmum 1.100 árum.

„Það er augljóst mál að það sem er sérstakt við íslensku kúna er að þetta er lokaður erfðahópur sem er búinn að vera einangraður nánast frá því að sögur hófust þannig að það má gera ráð fyrir því að erfðavísasafn íslensku kýrinnar sé að einhverju leyti sérstakt,“ segir Magnús B. Jónsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.
 
„Þrátt fyrir að erfðahópurinn sé lítill er skyldleikaræktun ekki meiri en í sambærilegum og stærri kúakynjum. Þannig að það er ekkert sem bendir til þess að íslenska kúakynið sé erfðafræðilega illa á vegi statt.“ Litafjölbreytnin er einstök fyrir íslensku kúna en þær eru fjölbreyttari að lit en nokkur annar nautgripastofn í Evrópu.

Að sögn Magnúsar hefur íslenska kýrin farið stækkandi í gegnum árin og nálgast nú í stærð þau kúakyn sem eru minnst á Norðurlöndunum eins og Ayrsire- og NRF-kynið. „Það hefur líka sýnt sig að nýting á gróffóðri er fyllilega sambærileg því og gerist í öðrum kúakynjum og sumir hafa haldið því fram að hún sé örlítið betri hjá íslensku kúnum.“ Næsta skref að ræða fórnarkostnað.

Mikið hefur verið rætt um hugsanleg tengsl á milli lágrar tíðni sykursýki í börnum hér á landi og sérstakra eiginleika í íslenskri kúamjólk. „Það er vitað að tíðni ákveðinna próteina í mjólkinni er hærri en í öðrum kúakynjum á Norðurlöndunum, en þau prótein eru góð vegna ostagerðar og nýgengi sykursýki í ungbörnum.“ Að mati Magnúsar er næsta skref í umræðunni um innflutning að ræða fórnarkostnaðinn. „Núna erum við búin að finna nokkurn veginn út hvað við getum hagnast mikið á að flytja inn annað afurðameira kúakyn og nú þurfum við gera úttekt á því hvað það muni kosta að flytja inn, hverju við töpum í sérstöðu og átta okkur á því hvert verðmæti íslenska kúastofnsins er sem erfðahóps. Ef það er til staðar erum við meira skuldbundin að halda honum við en ekki,“ segir Magnús.

Morgunblaðið 29. október 2007 / Ingveldur Geirsdóttir


back to top