Jarðræktarstyrkur síðasti séns að skrá umsókn!

Nú fer að styttast í að lokað verði fyrir umsóknir um framlög til jarðræktar- og hreinsunar á affallsskurðum, en síðasti dagur til að skrá umsókn inn í Bændatorgið er 10. september n.k. Við minnum bændur á að aðeins er tekið við rafrænum umsóknum í gegnum Bændatorgið, en hjá Búnaðarsambandi Suðurlands er hægt að fá aðstoð við umsóknarferlið.  

Sú nýjung kemur inn að þeir sem hafa skráð ræktun í JÖRÐ vegna ársins 2016 geta flutt þær upplýsingar með sjálfvirkum hætti yfir á umsóknareyðublað Matvælastofnunar á Bændatorginu, ef þeir kjósa svo. Bændur eru því hvattir til að ganga sem best frá skráningu spildna í JÖRÐ og skrá þar tegundir og yrki áður en gengið er frá jarðræktarumsókn til búnaðarmálaskrifstofu Matvælastofnunar. Þá er minnt á að kröfuna um að stafrænt túnkort í túnkortagrunni Bændasamtaka Íslands sé til staðar fyrir þær spildur sem sækja á um styrk fyrir. Umsóknum skal skilað inn í síðasta lagi 10. september en gott er að gera þetta strax og menn eru búnir að sá í stykkin og skrá í JÖRÐ.

Úttektum skal að jafnaði vera lokið fyrir 15. nóvember ár hvert og eru styrkir greiddir fyrir árslok. Á Bændatorginu má nálgast frekari upplýsingar um verklagsreglur um framlög og úttektir.

Framlög til jarðræktar fara eftir verklagsreglum í reglugerð nr. 1221/2015 um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum 2016, og reglugerð nr. 1220/2015 um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda verðlagsárið 2016, í VIÐAUKA II og III, um framlög til jarðræktar og hreinsunar affallsskurða, gefin út af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og fjalla um ráðstöfun fjármagns úr jarðræktarsjóði, skv. 5. gr. samnings um verkefni samkvæmt búnaðarlögum, nr. 70/1998 og framlög til þeirra á árunum 2013 til 2017, dags. 28. september 2012 sbr. grein 6.4 í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, dags 10. maí 2004, með síðari breytingum, og grein 4.5 í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar, dags. 25. janúar 2007, með síðari breytingum.

Nánar á bondi.is og mast.is


back to top