Jarðræktin á Stóra-Ármóti
Á Tilraunabúinu á Stóra-Ármóti hafa verið brotnir til ræktunar alls 110,8 hektarar af landi jarðarinnar. Ræktunarlandið er breytilegt. Víða er stutt niður á Þjórsárhraunið og jarðvinnsla því víða fremur erfið á hluta jarðarinnar. Framræsla er nauðsynleg á hluta ræktunarlandsin þar sem jarðvegurinn er mýrarkenndur en meðfram Hvítá er jarðvegurinn moldarblandaður sandjarðvegur. Ræktunarlandið í heild myndi teljast fremur áburðarfrekt.
Hluti ræktunarlandsins er aðeins nýttur til beitar. Á liðnu sumri voru slegnir 65 hektarar til heyöflunar í fyrri slætti og um 28 hektarar í seinni slætti. Þessi heyöflun skilaði 890 rúllum í fyrri slætti og 150 í seinni slætti. Að auki var sáðkorni af Filippu sáð til þroska í 14,5 hektara en aðeins voru uppskornir 12,5 ha. Hluti kornræktarinnar var á bökkum Hvítár og skýrist mismunurinn af ágangi gæsa sem verpa í Ármótseyjunni og sóttu í akurinn. Heildaruppskera korns á liðnu ári voru 48,5 tonn miðað við 85% þurrefni.
Í vor var korni sáð í 19 hektara alls sem er talsverð aukning frá fyrra ári. Filippa sem notuð hefur verið undanfarin ár og komið vel út var ófáanleg í vor svo sáð var tveggja raða yrkinu Kríu í 15,5 ha og sex raða yrkinu Skúmi í 3,5 ha. Korninu var sáð 18. apríl og hefur aldrei sáð jafn snemma og nú. Þegar þetta er skrifað nú 7 vikum síðar er kornið komið vel af stað og hefur náð um 7 cm hæð.
Að auki var grasfræi sáð í 8 hektara og rýgresi í 4,5 hektara. Rýgresið er ætlað til beitar fyrir mjólkurkýrnar.
Mykja var borin á 54 hektara af túnum, þar af var mykjan felld niður á 36 hekturum til prufu. Til þess var notaður nýr haugtankur sem fyrirtækið Skarni ehf. á og rekur. Að jafnaði var dreift 25 tonnum á hvern hektara. Tilbúinn áburður var borinn á í tvennu lagi á öll tún sem ekki fengu mykju, fyrsti skammtur 20. apríl á tún til beitar en almennt til heyöflunar um mánaðarmótin apríl – maí.
Spretta fer mjög vel af stað og má búast við að sláttur hefjist um svipað leyti og síðast liðið sumar eða um miðjan júní.