Jón Bjarnason ósáttur við ráðherraskipti
Jón Bjarnason er á leið úr ríkisstjórn og mun Steingrímur J. Sigfússon láta af embætti fjármálaráðherra og taka við þeim ráðuneytum sem síðar mynda nýtt atvinnumálaráðuneyti, þ.m.t. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Jón sagðist ósáttur við vinnubrögðin við ráðherraskiptin og það sem að baki byggi. Hann segir ljóst að þarna sé á ferðinni að hann hafi verið afdráttarlaus andstæðingur inngöngu í Evrópusambandið og haldið því stíft fram þó sú vinna sé í gangi.
Jón Bjarnason sendi frá sér yfirlýsingu að loknum þingflokksfundi Vinstri-grænna þar sem hann lýsti miklum vonbrigðum með atburðarásina. Hana má lesa hér að neðan:
„Krafa um úrsögn mína úr ríkisstjórn sem nú hefur náð fram að ganga er eins og ítrekað hefur komið fram, komin til vegna afstöðu minnar til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Ég stend persónulega sáttur upp frá borði eftir árangursríkan ráðherraferil.
En um leið harma ég þessi málalok fyrir minn flokk, kjósendur VG og einnig þann málstað sem hefur verið hornsteinn í okkar stefnu. Það er mér mikið áhyggjuefni hvernig formaður VG heldur hér á málum gagnvart samstarfsflokki sínum án þess að hlusta á lýðræðislegar stofnanir og grasrót Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Ég tel að með þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir sé enn og aftur höggvið stórt skarð í þann trúverðugleika sem VG hefur haft sem stjórnmálahreyfing. Okkur sem stöndum vaktina fyrir hugsjónir VG bíður mikið og erfitt verkefni endurreisnar. Þar mun ég ekki liggja á liði mínu og ég heiti á mitt stuðningsfólk að vinna að málefnum okkar og þeirri vinstristefnu sem hreyfing okkar hefur staðið fyrir allt frá stofnun. Á því þarf Vinstrihreyfingin grænt framboð og sá málstaður sem hún var stofnuð um nú meira á að halda en nokkru sinni.
Einn af hornsteinum í stefnu VG er krafan um fullveldi Íslands og þar með afdráttarlaus andstaða við aðild að ESB. Við myndun meirihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur vorið 2009 var um það samið milli flokkanna að virða skyldi ólíkar áherslur í þessu deilumáli. Atburðarásin sem síðan hefur átt sér stað sýnir okkur að þar fylgdi ekki hugur máli hjá þeim sem ötulast berjast fyrir aðild að ESB. Nú er svo komið að þrír af þingmönnum VG hafa gengið út og mér sem ráðherra er vikið úr embætti fyrir að vilja gæta vel að hagsmunum Íslands í þessum málum.
Undir minni forystu hefur mikil vinna farið fram innan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis við aðildarumsókn að ESB í samræmi við fyrirmæli Alþingis. Þess hefur jafnframt verið gætt að í engu sé farið út fyrir það umboð sem Alþingi veitti ríkisstjórninni með þingsályktunartillögu sinni þann 16. júlí 2009. Slík varfærni og ábyrgð er afar mikilvæg þegar um er að ræða meðferð íslenskra hagsmuna í milliríkjasamningum. Án efa mun brotthvarf mitt úr ríkisstjórn gleðja marga þá sem ákafast berjast fyrir skilyrðislausri aðild Íslands að ESB og telja sértæka hagsmuni Íslands litlu skipta.
Um leið og ég óska ráðherrum velfarnaðar í störfum sínum og þakka samráðherrum mínum samstarfið vil ég senda stuðningsfólki og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilegt ár og farsælt komandi ár.“