Kannar hvort díoxínmengað fóður eða matvæli hafi verið flutt til Íslands

Matvælastofnun kannar nú til frekari staðfestingar hvort díoxínmengað fóður eða matvæli frá Þýskalandi hafi verið flutt til Íslands en stofnunin hefur fengið upplýsingar í gegnum RASFF hraðviðvörunarkerfi Evrópu um dioxínmengun í þýsku fóðri. Einnig hefur verið fjallað mikið um málið í fjölmiðlum. Mengunin stafar frá iðnaðarolíu (bíodisel) sem notuð var til fóðurgerðar frá nóvember síðastliðnum og hefur fundist nú í svínakjöti, eggjum og alifuglum auk fóðurs.
Díoxín og fleiri þrávirk lífræn mengunarefni geta fundist í feitum matvælum eins og fiski, kjöti og mjólk. Díoxín safnast fyrir í fituvef í líkamanum og langvarandi neysla getur haft áhrif á ónæmiskerfi, æxlunarfærin, hormónastarfsemi og taugakerfið.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá þýskum yfirvöldum hefur menguðu fóðri einungis verið dreift innan Þýskalands en talið er að 25 þýsk fóðurfyrirtæki hafi notað fituna sem hráefni til fóðurgerðar en fitunni hafi ekki verið dreift til annarra ríkja.


Þýsk yfirvöld telja að engar mengaðar dýrafurðir hafi verið fluttar til annarra ríkja nema tvær sendingar af hugsanlega menguðum eggjum sem fóru til Hollands.
 
Matvælastofnun mun birta nýjar upplýsingar á vefsíðu sinni um leið og þær berast.


back to top