Klaufsnyrting bætir líðan mjólkurkúnna
Búvísindamenn og þeir bændur sem hafa af því reynslu telja góða klaufhirðu mjög mikilvæga fyrir mjólkurkýr. Góð klaufhirða bætir almenna líðan kúnna, eykur nyt og beiðsliseinkenni og þar með frjósemi. Danskar rannsóknir sýna t.d. að góð klaufhirða bæti nyt um allt að 5% og þar í landi telja menn engan vafa leika á fjárhagslegum ávinningi af reglulegri klaufsnyrtingu. Öfugt við það sem menn gætu haldið er ekki minni þörf á klaufsnyrtingum í lausagöngufjósum en í básafjósum. Reglulegar heimsóknir klaufsnyrtingarmanna, t.d. tvisvar á ári ætti að vera regla fremur en undantekning. Aldrei er hægt að taka allar kýrnar í sömu ferðinni, t.d. er ekki sérlega sniðugt að snyrta klaufir á kúm sem komnar eru nálægt burði eða eru enn að jafna sig eftir burð.
Kynbótastöð Suðurlands keypti á síðasta ári fullkominn klaufsnyrtingabás. Nýir menn hafa nú tekið við starfi klaufsnyrtitækna en það eru frændurnir Þorsteinn Logi Einarsson í Egilsstaðakoti og Sigmar Aðalsteinsson í Jaðarkoti (Kolsholti). Þeir munu a.m.k. fyrst um sinn báðir fylgja básnum sem þar með eykur afköstin á hverjum bæ.
Kynbótastöðin ber kostnað við fjárfestinguna í básnum en notendum þjónustunnar er ætlað að standa undir mannakaupi og rekstrarkostnaði. Komugjald er krónur 8.000 og tímagjald á hvorn starfsmann er 3.000 krónur. Á síðasta ári var heildarkostnaður á hverja kú 1.169 kr að jafnaði en einhver hækkun er fyrirsjáanleg þar sem komugjaldið hefur hækkað um 3.000 krónur frá þeim tíma.
Hægt er að panta klaufsnyrtingu í síma 480-1800 eða hjá klaufsnyrtitæknunum sjálfum í síma 867-4104 (Þorsteinn Logi) og 696-8653 (Sigmar).