Komu í veg fyrir stórtjón í bruna í Holtum

Slökkviliðsmönnum af öllum Rangárvöllum tókst í nótt að koma í veg fyrir að stórtjón yrði að bænum Meiri-Tungu í Holtum þegar eldur blossaði þar upp í vélaskemmu sem gjöreyðilagðist.
Þar inni voru meðal annars gaskútar en svo vel tókst til að þeir sprungu ekki. Yfir 30 kýr, sem voru í áföstu fjósi, var hleypt út í frostið þegar reyk lagði þar inn. Þær sakaði ekki og voru vistaðar í reiðskemmu á næsta bæ.

Slökkviliðsmönnum tókst að verja fjósið og nálæga hlöðu en ekki mátti tæpara standa, að sögn slökkviliðsmanna. Ef eldur hefði borist í þær byggingar hefði fleiri mannvirkjum staðið ógn af eldinum því fjölbýlt er í Meiri-Tungu.


Engar vinnuvélar voru í vélageymslunni en þar var mikið af verkfærum. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá neista frá slípirokki, sem bóndinn var að vinna með í gærkvöldi. Eldurinn breididst út með leifturhraða en forðaði bóndinn sér út í tæka tíð.


back to top