Konur og verkefnið Byggjum brýr

Á síðustu mánuðum hefur mikill fjöldi kvenna tekið þátt í námskeiðum innan verkefnisins „Byggjum brýr“. Aðstandendur verkefnisins vona að þátttakendur hafi haft gaman og gagn af þessum viðfangsefnum og að það hafi opnast leiðir fyrir nýjar hugmyndir eða ný tækifæri sem muni þróast enn frekar.
Dagana 20.-23. júní verður lokafundur verkefnastjórnar í verkefninu „Byggjum brýr“ haldinn hér á landi. Þá munu koma nokkrir fulltrúar frá þeim löndum sem eiga aðild að verkefninu auk um 15 tékkneskra kvenna sem kalla má lykilkonur í því landi. Þessa daga verður haldinn fundur með verkefnisstjórninni en auk þess verður staðið fyrir opinni ráðstefnu og opnum degi í Reykjavík sem konum í dreifbýli býðst að taka þátt í.

Dagskrá miðað við núverandi skipulag er þannig:

miðvikudagur 20. júní – erlendu aðilarnir koma til landsins

fimmtudagur 21. júní – fundir og skoðunarferð um Borgarfjörð

föstudagur 22. júní 
Kl. 10:30 Erlendi hópurinn ásamt þeim konum sem hafa áhuga, íslensku þátttakendunum í verkefninu, mæta í móttöku á Bessastaði til forseta Íslands.

Kl. 13:00 Opin ráðstefna (á ensku) á Hótel Sögu, um árangur og mikilvægi verkefnisins.Gaman væri að sjá sem flestar konur úr dreifbýli mæta.

Kl. 16:00-18:00 Léttar veitingar í boði Landbúnaðarráðuneytisins – tónlistaratriði o.fl..

laugardagur 23. júní
,,Ég og þú – byggjum brú” – Opinn dagur í Matarsetrinu við Grandagarð frá kl. 13:00-16:00. Kynning á lífi, þjóðmenningu og nýsköpun í íslensku og tékknesku dreifbýli.
Opni dagurinn verður vel auglýstur í fjölmiðlum þegar nær dregur og því von á mörgum.


Hér með bjóðum  við öllum þeim sem verið hafa  þátttakendur í „Byggjum brýr“ verkefninu og/eða tengjast verkefninu “Beint frá býli”, að koma og  kynna eigin framleiðsluvörur og þjónustu s.s. heimaunna framleiðslu, íslenskt handverk, íslenska nýsköpun í sveitum, ferðaþjónustu , sýningar, uppákomur, þjóðbúninga, dansa, tónlist ofl. Aðstaðan er þátttakendum að kostnaðarlausu. Tékknesku konunum sem verða hér á ferð býst einnig að taka þátt. Þær munu m.ö.o. kynna líf og störf í dreifbýli með sambærilegum hætti. Þetta er einstakt tækifæri til að ná til fjölda fólks, á besta tíma (Jónsmessan) og besta stað við höfnina í Reykjavík. Húsnæðið er með útsýni yfir smábátahöfn og glugga alveg yfir aðra langhliðina. Langborð verða til staðar sem og stólar, aðgangur að rafmagni og veggflötum. Með þessari tilkynningu okkar viljum við óska eftir því að þær sem vilja taka þátt í þessum degi og kynna sig og sitt  hafi samband fyrir 8.júní n.k. Konur geta verið einar og sér en einnig tekið sig saman frá hverjum námshópi eða svæðum – og þannig dregið fram sérstöðu viðkomandi svæðis. Hafið samband við Árna Jósteinsson í síma: 563 0367 eða á netfangið aj@bondi.is

Með góðri kveðju


Ásdís Helga Bjarnadóttir – Landbúnaðarháskóli Íslands,
Ragnhildur Sigurðardóttir  – Lifandi landbúnaður
Árni Jósteinsson – Bændasamtök Íslands


back to top