Kúabændur athugið

Búnaðarsamband Suðurlands býður bændum upp á fóðurætlun í NorFor fóðurmatskerfinu veturinn 2011/12 gegn vægu árgjaldi þ.e. 12.000 kr. NorFor fóðurmatskerfið tekur tillit til fleiri þátta en þekkst hefur i öðrum kerfum. Reynsla þeirra þjóða sem nú nota NorFor-kerfið (Danir, Norðmenn og Svíar) er sú að fóðrun verður markvissari og spara má verulegar fjárhæðir.
Til að hægt sé að gera fóðuráætlun í NorFor er mælst til að senda inn verkuð heysýni. Þau skal taka eftir 6-8 vikna verkun. Kostnaður á sýni er 6.800 kr. án vsk. Bssl mun hafa heysýnabora til láns til að taka verkuð sýni. Merkja þarf gróffóðursýnin NorFor svo þau fái þá viðbótargreiningu sem til þarf. Sýnin skulu berast á skrifstofu BSSL en þaðan verða þau send til greiningar.

Markmið hjá Bssl er að gera fóðuráætlanir eins fljótt og hægt er í haust og fylgja þeim svo eftir yfir veturinn. Þá munum við gera nýjar áætlanir þegar þurfa þykir t.d. þegar skipt er um gróffóður.


Við vonum að sem flestir kúabændur sjái sér hag í að nýta sér þessa þjónustu. Þetta er tækifæri til að ná enn betri nýtingu fóðursins. Aukið jafnvægi í fóðrun getur hækkað próteinhlutann í mjólkinni ásamt betra heilsufari kúnna sem án efa skilar sér í hagkvæmari rekstri búsins.


Þeir bændur sem hafa áhuga á að fá fóðuráætlun í NorFor er hvattir til að skrá sig hjá undirrituðum fyrir 1. júlí næstkomandi. Við munum vera í frekari sambandi við þá sem skrái sig.


Með von um jákvæð viðbrögð og skemmtilegt samstarf í vetur.


Hrafnhildur Baldursdóttir, netfang: hrafnhildur@bssl.is og Margrét Ósk Ingjaldsdóttir, netfang: margret@bssl.is eða í síma BSSL sími 480-1800.


Heysýnataka- nokkur minnisatriði
Venjan á Íslandi er að taka hirðingarsýni en kostir þess að taka verkuð sýni eru að þá erum við með fóðrið sem líkast því ástandi sem það verður gefið, það á ýmislegt eftir að gerast í verkuninni sem við náum ekki höndum yfir ef tekin eru hirðingarsýni. Á það sérstaklega við um votheysverkun eða þegar rúllur eru verkaðar með lægra en 50-60% þurrefnisinnihaldi. Ef að stefnt er á að vera með í NorFor mælum við með að verkuð sýni verði tekinn. Þegar senda á verkuð gróffóðursýni til efnagreininga þarf fóðrið að hafa verkast í 6-8 vikur. Við sýnatökuna er gott að miða við að taka úr a.m.k. 2-3 rúllum/böggum í hvert sýni og bora á 2-3 stöðum í hverja rúllu, bæði ofarlega og neðarlega. Þessu er svo öllu blandað saman og sýni tekið úr því. Í votheysstæðum er borað 5-7 sinnum, því blandað vel saman og sýni sent úr því. Þá er gott að miða við að taka eitt sýni úr hverri stæðu.
Góð regla er að senda sýni úr fyrri slætti og annað úr seinni slætti. Einnig að senda sýni úr rýgresi eða ef eitthvað sérstakt einkennir hluta fóðursins sem er til á bænum. Þá er hægt að flokka túnin niður í nýræktir og gömul tún og svo eftir því hvenær slegið er. Þannig má taka eitt sýni úr nýræktum sem eru slegnar á sama tíma og annað úr gömlum túnum sem slegin eru á sama tíma. Það eina sem þarf að hafa í huga er að sýnið samanstandi af einsleitu fóðri þ.e. túnum sem eru með svipaða tegundasamsetningu og svipað þroskuð. Þegar taka á eitt sýni sem á að vera lýsandi fyrir nokkur tún er mikilvægt að taka af fleiri en einu, blanda því í bala og taka samsýni sem er sent til greiningar.
Með von um gott gengi í sumar.


back to top