Kúabændur krefjast þess að óvissu verði eytt

Í Morgunblaðinu í gær birtist eftirfarandi grein eftir Þóri Jónsson, kúabónda á Selalæk í Rangárvallasýslu og formann Félags kúabænda á Suðurlandi.

Kúabændur krefjast þess að óvissu verði eytt
Kvótakerfi í mjólkurframleiðslunni er kerfi sem bæði er framleiðslustýring og grunnur að stuðningi við framleiðslu á mjólk. Framleiðslustýringin felst í því að gefið er út ár hvert greiðslumark, þ.e. sá lítrafjöldi sem bændur fá greitt lögbundið lágmarksverð fyrir frá afurðastöð. Ákvörðun að því greiðslumarki fer eftir sölu á mjólkurafurðum síðastliðið ár og birgðastöðu.


Grunnurinn að stuðningi ríkisins við greinina felst í greiðslumarkinu sem er í mjólkurframleiðslunni. Þá er stuðningur ríkisins föst krónutala samkv. búvörusamningi sem hvorki hækkar né lækkar þó heildargreiðslumark mjólkur breytist. Þessu fylgja líka réttindi og skyldur. Réttindin eru að sú framleiðsla sem ákveðin er lögum samkvæmt ár hvert, svokallað heildargreiðslumark, hafi forgang að markaði innanlands. Skyldur, til að tryggja nægt framboð af mjólkurvörum á sama verði um land allt og að bændur fái greitt umsamið lágmarksverð. Kvóti (greiðslumark) hvers mjólkurframleiðanda (bónda) er það sem hann hefur rétt til að framleiða og fá fullt umsamið verð fyrir.

Ef bóndi á kvóta (greiðslumark í mjólk) er það í raun hans aðgangur að markaði á mjólkurafurðum. Mjólk framleidd umfram greiðslumark skal fara á erlendan markað á ábyrgð hvers framleiðanda og viðkomandi afurðastöðvar. Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur þó heimilað sölu þessara vara innan lands ef heildarframleiðsla verður minni en sala og birgðastaða gefur tilefni til. Þar að auki skulu allir framleiðendur skila skýrslu um umfang framleiðslunnar. Staðan í dag er að sumir framleiðendur sinna ekki þessari skyldu sinni um skýrsluskil, sem er vegna þess að það vantar inn í búvörulögin viðurlög ef þessari skyldu framleiðenda mjólkur er ekki sinnt. Heimavinnsla mjólkur og sala fer nú vaxandi og það er eðlilegt að tölulegar upplýsingar liggi fyrir um þá vinnslu. Þeim framleiðendum, sem ætla að fara út í heimavinnslu eða eru komnir af stað, er enginn greiði gerður með því að óvissa ríki um afsetningu umframmjólkur.


Hér er ekki verið að leggja stein í götu heimavinnslu en sú framleiðsla sem og önnur þarf að fara að þeim leikreglum og lögum sem eru í gildi. Öll framleiðsla á lögbýli, bæði sem seld er í afurðastöð og heimaunnin mjólk telst með í uppgjöri greiðslumarks fyrir viðkomandi lögbýli. Samkvæmt útgefinni reglugerð. Útflutningur á mjólkurvörum er á mjög lágum verðum eins og staðan er í dag, það stefnir í að umframframleiðsla á mjólk verði á þessu verðlagsári ekki síst vegna lækkunar á greiðslumarki um 3 millj. lítra, úr 119 milljónum lítra í 116.25 milljón lítra á ársgrunni. Hvað MS mun greiða fyrir umframmjólk hefur enn ekki verið birt, sem lýsir e.t.v. best í hvaða stöðu þessi mál eru í dag.


Vöntun á úrræðum til að tryggja ákvæði búvörulaga um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkaði getur valdið miklu uppnámi ef miklu magni mjólkur utan greiðslumarks verður beint inn á innanlandsmarkað. Fyrir Alþingi liggur frumvarp frá ráðherra landbúnaðarmála um breytingar á ákvæðum laga sem varða markaðssetningu mjólkur utan greiðslumarks og að ákvæði um álagningu dagsekta verði skýrð og einfölduð.


Sunnlenskir kúabændur leggja áherslu á að það frumvarp sem liggur fyrir Alþingi fái þá afgreiðslu að óvissu um framleiðslu og afsetningu umframmjólkur verði eytt. Þannig að allir framleiðendur sem og afurðastöðvar séu jöfn fyrir þeim lögum og reglum sem í gildi eru.

Höfundur er bóndi og formaður Félags kúabænda á Suðurlandi.


 


back to top