Kúabændur óánægðir með upptöku árgjalds fyrir Huppu

Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi fundaði í Björkinni á Hvolsvelli þann 4. október s.l. Á fundinum kom m.a. mikil óánægja með upptöku árgjalds fyrir skýrsluhaldsforritið Huppu. Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem þessu var mótmælt harðlega en ályktunin hljóðar svo:
„Félagsráðsfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Björkinni, Hvolsvelli 4. okt. 2011 mótmælir harðlega upptöku árgjalds fyrir skýrsluhaldsforritið Huppu.

Kúabændur greiða um eða yfir 50% alls búnaðargjalds sem innheimt er af bændum. Af búnaðargjaldi sem innheimt er af kúabændum fá Bændasamtök Íslands rúm 29%.  Fundurinn telur að Bændasamtökin þurfi að sýna  fram á, að allir þeir fjármunir nýtist til þjónustu greinarinnar, áður en farið er að krefja kúabændur um frekari gjaldtöku fyrir þjónustu samtakanna.“


Á fundinn komu þeir Egill Sigurðsson og Einar Sigurðsson hjá MS og ræddu málefni MS og Auðhumlu. Egill gat m.a. um að rekstur fyrirtækjanna væri réttu megin við núllið og salan gengi allvel. Það bíður ákvörðunar ráðherra  greiðslumark næsta árs. Ljóst að það næst betri nýting á innvegna mjólk ár frá ári.
Einar gat um þær breytingar sem hafa orðið í mjólkuriðnaðinum og fór yfir þær breytingar sem hafa orðið vinnsluþættinum gagnvart einstökum samlögum síðustu tíu ár. Búið væri að fækka vinnslustöðvum og einfalda vinnslu á hverjum stað. Hagræðing síðustu ára hefur skilað sér vel. Kostnaður MS er um tveimur milljörðum minni í dag en hann var fyrir sex árum. Þetta hefur birst bæði í lægra vöruverði á markaðnum og eins hitt að ná að halda uppi afurðaverði til bænda. Hins vegar bíður töluverð fjárfesting, bæði á Selfossi og á Akureyri.


Þá mætti Sigurður Loftsson, formaður LKL, á fundinn og ræddi meðal annars viðurlög í núgildandi búvörulögum, þar eru ákvæði varðandi skýrsluskil en ekki vegna sölu á mjólk á innanlandsmarkað utan greiðslumarks.


Þá kom fram á fundinum að fyrsti haustfundur LK verður í Þingborg 13. október n.k. en stærsta mál þeirra funda er stefnumörkun LK.

Sjá nánar:
Fundargerð Félagsráðsfundar FKS 4. okt. 2011


back to top