Kúm fjölgar og búin stækka
Á síðasta ári komu 226 bú til uppgjörs í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar hér á Suðurlandi. Þetta er fækkun um 8 bú frá árinu áður. Þetta þýðir 84% þeirra búa sem voru í framleiðslu um áramótin 2006/07 tóku þátt í skýrsluhaldi á árinu 2007.
Meðalafurðir stóðu nánast í stað, enduðu í 5.579 kg/árskú sem er einu kg meira en 2006. Fituinnihald í mjólk hækkaði úr 3,95% í 4,02% og próteininnihaldið hækkaði um 0,01 prósentustig, í 3,41%. Meðalafurðir í kg verðefna (MFP) jukust þannig um 5 kg milli ára, úr 410 kg MFP/árskú í 415 kg MFP/árskú. Ef litið er til heilsárskúa, þ.e. kúa sem eru á skýrslu allt árið, kemur í ljós að meðalafurðir þeirra aukast úr 5.570 kg í 5.681 kg.
Þrátt fyrir fækkun búa fjölgaði reiknuðum árskúm um 433,6, úr 8.185,8 í 8.619,4. Meðalbústærð eykst úr 36,3 árskúm í 38,9 árskýr eða um 2,6 árskýr. Inni í þessari stærð eru eingöngu reiknuð bú sem skiluðu skýrslum allt árið.
Ef litið er til afurðaþróunar eftir sýslunum fjórum kemur í ljós að afurðir jukst í A-Skaftafellsýslu og Árnessýslu en minnkuðu í V-Skaftafellssýlu og Rangárvallasýslu eins og sjá má í töflunni hér fyrir neðan.
Sýsla | Kg/árskú 2006 | Kg/árskú 2007 | Breyting,kg |
A-Skaft. | 5.511 | 5.632 | +121 |
V-Skaft. | 4.999 | 4.921 | -78 |
Rang. | 5.724 | 5.686 | -38 |
Árn. | 5.581 | 5.613 | +32 |
Afurðir eru enn sem fyrr mestar í Rangárvallasýlsu og sýnu minnstar í V-Skaftafellssýslu.
Til samanburðar við áðurgreindar tölur reyndust afurðir á landinu öllu 5.480 kg/árskú og 408 kg MFP.
Listi yfir afurðahæstu búin á Suðurlandi er kominn hér á vefinn og má sjá með því að smella hér og lista yfir afurðahæstu kýr á Suðurlandi 2007 má sjá með því að smella hér.
Við munum á næstu dögum birta niðurstöður skýrsluhaldsins eftir nautgriparæktarfélögum sem og lista yfir afurðahæstu kýr nautgriparæktarfélaganna