Kvótamarkaður með greiðslumark í mjólk
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti á greiðslumarki mjólkur á lögbýlum (kvótamarkað) og einnig reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 648/2009, um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda frá 1. september 2009 til 31. desember 2010. Samkvæmt reglugerðinni er Matvælastofnun falið að starfrækja kvótamarkað með greiðslumark mjólkur, sem á að halda tvisvar á ári, 1. júní og þann 1. desember ár hvert. Þá eru viðskipti með greiðslumark nú stöðvuð tímabundið eða fram til 1. desember n.k.
Markmið breytinganna er að fjárhagslegur stuðningur við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda og að greinin geti þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og unnt sé að nýta framleiðsluaðstöðuna með eðlilegum hætti. Breytingunum er nánar ætlað að stuðla að réttlátari skiptingu ávinnings heildarinnar (seljenda kaupenda og neytenda) af viðskiptunum t.d. með því að auka gagnsæi, ná meira jafnvægi í verðum og jafna stöðu kaupenda og seljenda hvað varðar upplýsingar um markað fyrir greiðslumark. Jafnframt er verið að koma tímabundið í veg fyrir að ráðstöfum greiðslumarks frá einstökum býlum í fjárhagsvanda eigi sér stað, án þess að áhrif á heildar stefnumótum liggi fyrir.
Helstu nýmæli eru að Matvælastofnun er falið að starfrækja kvótamarkað sem haldinn skal tvisvar á ári; þann 1. júní og þann 1. desember ár hvert og í fyrsta skipti 1. desember 2010. Markaðurinn er settur upp að danskri fyrirmynd þar sem að eingöngu geta orðið viðskipti á s.k. jafnvægisverði. Við opnun tilboða skráir Matvælastofnun magn og verð á hverju tilboði um kaup eða sölu. Við flokkun tilboða um sölu skal þeim raðað upp eftir hækkandi verði við hvert innfært tilboð. Kauptilboðum skal raðað upp eftir lækkandi verði við hvert innfært tilboð á sama hátt. Jafnvægisverð er það verð sem myndast þegar framboðið magn er jafnt og eftirspurt magn eða lægsta verð, sem jafnvægismagn getur verið selt og keypt á. Jafnvægismagn er það magn greiðslumarks, sem boðið fram getur gengið kaupum og sölum á markaðnum hverju sinni. Greiðslumarki sem boðið er til sölu á hærra verði en jafnvægisverði skal vísað frá markaði og á sama hátt kauptilboðum sem eru lægri en jafnvægisverð.
Reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum.