Lagt til að gerður verði samningur um starfsskilyrði svínaræktar

Lagt er til að ríkið geri samning við svínabændur um starfsskilyrði greinarinnar, í skýrslu starfshóps um eflingu svínaræktar. Jafnframt er varað við samþjöppun framleiðslunnar og vakin athygli á því að unnt er að margfalda notkun byggs við framleiðslu svínakjöts.
Erfiðleikar eru í svínaræktinni um þessar mundir og afkoma framleiðenda slæm. Miklar sveiflur hafa verið í framleiðslunni á undanförnum árum og þótt neyslan hafi aukist hafa komið tímabil mikillar offramleiðslu. Verð hefur lækkað og framleiðendur orðið gjaldþrota.

Svínabúin hafa verið að þróast í sífellt stærri einingar og varar starfshópurinn við afleiðingum þess. Kemur fram að fleiri vandamál komi upp í stærri rekstrareiningum en smærri. Meðal annars er vakin athygli á afleiðingum þess ef bráðsmitandi alvarlegir sjúkdómar koma upp í stórum svínabúum. Ríkið geti orðið að greiða háar fjárhæðir í bætur ef fyrirskipa þurfi niðurskurð.


Björn Halldórsson, formaður starfshópsins, segir ekki til umræðu að minnka búin með boðum og bönnum. Hins vegar geti verið skynsamlegt að líta til þess að framleiðslan verði stunduð í meiri sátt við umhverfið og hver framleiðandi hafi yfir að ráða það miklu landi að hann geti nýtt þann mikla áburð sem til fellur. Nefnir hann að í Danmörku sé miðað við að bú með 200 gyltur þurfi að búa yfir 200 hektara landi til heyframleiðslu eða 400 ha til kornframleiðslu.


Nefndin telur að íslenskir svínakjötsframleiðendur eigi mikil sóknarfæri í innlendri fóðuröflun sem skylt sé að nýta, ekki síst með tilliti til fæðuöryggis þjóðarinnar, gjaldeyrissparnaðar og nýtingar landgæða. Nefnt er í skýrslunni að 27 þúsund tonn af fóðri þurfi til svínakjötsframleiðslunnar. Það er að meginhluta innflutt, aðeins eru rúmlega eitt þúsund tonn af íslensku byggi notuð. Nefndin telur unnt að 15- til 20-falda íslenska fóðrið, og nota 20 þúsund af íslenskum ökrum, svo framarlega sem gæðin verði viðunandi. Björn telur að það gæti sparað um hálfan milljarð í gjaldeyri.


Þarf að móta stefnu
„Ég vonast til að ráðuneytið taki upp samstarf við svínabændur um næsta skref. Það þarf að móta stefnuna, hvort sem það verður gert með samstarfssamningi ríkis og bænda eða sameiginlegri stefnu.“


Hann sér fyrir sér að starfsskilyrði greinarinnar verði römmuð inn í slíkum samningi en hann snúist ekki um kvóta og beingreiðslur eins og þeir búvörusamningar sem gerðir eru við framleiðendur í hefðbundnari búgreinum.


Morgunblaðið 26. febrúar 2010, Helgi Bjarnason helgi@mbl.is


Skýrsla starfshóps um hvernig megi efla svínarækt á Íslandi með sérstöku tilliti til íslenskra aðstæðna hvað varðar fæðuöryggi, fóðuröflun og umhverfissjónarmið.


back to top