Landbúnaðaráðuneytið hyggst einfalda stjórnsýslu

Landbúnaðarráðuneytið hefur gefið út áætlun um einföldun regluverks og stjórnsýslu ráðuneytisins sem er liður í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um Einfaldara Ísland. Öll ráðuneytin hafa gefið út slíkar áætlanir í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar í október 2006. Meginábyrgð á framkvæmd hennar er á herðum hvers og eins ráðuneytis en forsætisráðherra hefur yfirumsjón með verkefninu og nýtur við það aðstoðar samráðshóps ráðuneyta, skrifstofu Alþingis, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Undanfarna mánuði hafa öll ráðuneytin farið yfir reglur sem þau starfa eftir og stjórnsýsluframkvæmd til að koma auga á leiðir til að auðvelda almenningi og fyrirtækjum samskipti við hið opinbera. Hafa ráðuneytin einsett sér að vinna markvisst að úrbótum á næstu tveimur árum með því að einfalda reglur og draga úr skriffinnsku.


Markmiðið er að framkvæmd reglna verði sem minnst íþyngjandi, óþarfa kröfur um leyfi og upplýsingagjöf af hálfu fyrirtækja verði afnumdar, kostir rafrænnar stjórnsýslu verði nýttir betur og aðgengi almennings að upplýsingum um gildandi lög verði bætt.


Fyrir utan markvisst átak til að einfalda gildandi reglur, felur áætlunin í sér að vandað verði sérstaklega til setningar nýrra reglna einkum ef þær eru íþyngjandi fyrir fyrirtæki eða einstaklinga.


Áætlun landbúnaðarráðuneytisins tekur til nokkurra málaflokka, s.s. aðbúnaðar og búfjár og heilbrigðis dýra, varna gegn búfjársjúkdómum, hagnýtingar rafrænnar stjórnsýslu, landnýtingu í þágu landbúnaðar, eignaumsýslu ráðuneytisins, fjármála bænda og framleiðslu- og markaðsmála í landbúnaði.


Í meginatriðum felur áætlunin í sér einföldun á framkvæmd málaflokka sem undir ráðuneytið og tilfærslu málaflokka þannig að hver málaflokkur heyri undir eina stofnun og eitt ráðuneyti ólíkt því sem nú er. Sem dæmi má taka dýravernd þar sem aðbúnaður og heilbrigði búfjár heyrir undir Landbúnaðarstofnun en dýravernd undir Umhverfisstofnun. Þá er ein af þeim hugmyndum sem varpað er fram í áætluninni sú að færa allt búfjáreftirlit undir Landbúnaðarstofnun en í dag sinn sveitarfélögin því ásamt Landbúnaðarstofnun.
Þá er töluvert um að í gildi séu reglugerðir sem ekki eiga lengur við og áætlunin gerir ráð fyrir að þær verði felldar brott. Þá eru einnig uppi hugmyndir í áætluninni um að hætta innheimtu verðskerðingargjalds af kjöti.


Einföldunaráætlun landbúnaðarráðuneytisins 


back to top