Litir á eyrnamerkjum sauðfjár og geita breytast um næstu áramót
Um næstu áramót ganga í gildi nýjar reglur um litamerkingar sauðfjár og geita sem rétt er að menn hafi í huga. Þetta mun snerta sauðfjárbændur hér á Suðurlandi verulega en litir eyrnamerkja hér munu taka verulegum breytingum.
– Í Húnahólfi verður notaður gulur litur, var áður brúnn.
– Í Suðausturlandshólfi austan Hornafjarðarfljóts verður notaður gulur litur, var áður blár.
– Í Eyjafjalla- og Vestur-Skaftafellssýsluhólfi verður hvítur litur milli Markarfljóts og Jökulsár á Sólheimasandi, var áður grænn.
– Í Grímsnes- og Laugardalshólfi verður fjólublár litur var áður blár.
– Í Biskupstungnahólfi verður grænn litur var áður blár.
– Syðst í Norðausturlandshólfi í Jökulsárhlíð og Jökuldal norðan Jökulsár að undanskildum Möðrudal verður gulur litur, en þar var fjólublár litur.
Framkvæmdin verður með þeim hætti að lömb sem fæðast vorið 2013 skulu merkt með eyrnamerkjum samkvæmt nýju litunum en ekki þarf að skipta um plötur í fé fæddu 2012 og fyrr. Þannig mun þessi breyting ganga yfir á 10-15 árum, allt eftir því hvað ærnar ná háum aldri.