Litróf landbúnaðarins
Fyrirhugað er að halda málþing um stöðu og framtíð landbúnaðar og byggðar í sveitum mánudaginn 14. september 2009 í Norræna húsinu í Reykjavík. Þar verða kynntar niðurstöður úr viðamiklu rannsóknaverkefni um þessi efni, sem unnið hefur verið að við Háskóla Íslands undanfarið og ber heitið „Litróf landbúnaðarins“.
Atvinnulíf í sveitum hefur tekið miklum breytingum hér á landi á undanförnum árum. Til viðbótar við hefðbundinn landbúnað, sem sér landinu fyrir undirstöðumatvælum, hefur margvísleg nýsköpun átt sér stað. Nýjar vörur hafa verið þróaðar og margs konar þjónusta er í boði. Einnig er í vaxandi mæli viðurkennt að bændur hafi hlutverki að gegna við að sjá samfélaginu fyrir ýmsum almannagæðum. Loks hafa bættar samgöngur breytt möguleikum fólks víða í sveitum til að sækja vinnu fjarri heimili. Í rannsóknaverkefninu hefur þessi þróun verið kortlögð og greind.
Niðurstöðurnar eru byggðar á spurningakönnunum og viðtölum við fjölmarga bændur víðsvegar um land.
Að lokinni kynningu á verkefninu munu nokkrir aðilar hugleiða niðurstöðurnar í pallborðsumræðum og verður gefinn góður tími til almennra umræðna. Leitast verður við að setja íslenska landbúnaðar- og byggðastefnu í stærra alþjóðlegt samhengi og velta vöngum um þróun komandi ára.
Málþingið verður öllum opið, en þeir sem láta sig varða málefni atvinnu- og byggðaþróunar eru sérstaklega velkomnir. Dagskráin verður auglýst nánar þegar nær dregur. Ef frekari upplýsinga er óskað má hafa samband við starfsmenn verkefnisins, Ingu Elísabetu Vésteinsdóttur (iev1@hi.is) eða Sigfús Steingrímsson (sis49@hi.is).