LK gerir athugasemdir við mjólkurfrumvarpsumræðu
Landssamband kúabænda hefur sent frá sér athugasemdir vegna umræðu um frumvarp til breytinga á búvörulögum sem hefur verið fyrirferðarmikil í fjölmiðlum að undanförnu. Þar segir m.a. að það sé rangt sem fram kom í Kastljósinu í gær að LK sé mótfallið heimavinnslu mjólkur, þvert á móti telji LK að heimavinnsla auki fjölbreytni á mjólkurvörumarkaði og geti skapað sóknarfæri mjólkurframleiðendur. Athugasemdirnar fara hér á eftir:
„Í tilefni af umræðu síðustu daga um frumvarp til breytinga á búvörulögum, vilja formaður og framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda koma eftirfarandi leiðréttingum og athugasemdum á framfæri:
1. Í 2. gr. frumvarpsins segir orðrétt. „Það varðar rekstraraðila afurðastöðvar (mjólkursamlags) fjársekt að taka við mjólk frá framleiðanda sem ekki hefur greiðslumark og markaðsfæra hana á innanlandsmarkaði. Sama gildir ef rekstraraðili afurðastöðvar markaðsfærir innanlands afurðir úr mjólk sem er umfram greiðslumark framleiðanda án samþykkis framkvæmdanefndar búvörusamninga“. Eins og sést á þessu snýr sektarkrafan að afurðastöðinni en ekki bændum. Í búvörulögum er síðan kveðið á um að mjólk umfram greiðslumark skuli flutt út á ábyrgð framleiðenda og viðkomandi afurðastöðvar.
2. Engin framleiðsla mjólkur hérlendis er undanþegin greiðslumarkskerfinu og markaðssetning hennar utan þess er brot á búvörulögum. Þar gildir einu hvort mjólkin hefur lífræna vottun eða ekki.
3. Í frumvarpinu, eins og það lítur út nú með breytingartillögum Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, er gert ráð fyrir heimild til heimavinnsluaðila að framleiða, vinna og markaðssetja 15.000 ltr. mjólkur á ári utan greiðslumarks heima á býlum sínum. Þær vörur sem verða til með þessu hætti getur heimavinnsluaðili selt hverjum sem er undir eigin nafni. Þetta ákvæði er hinsvegar bundið við viðkomandi vinnsluaðila og því er honum ekki heimilt að vinna eða markaðssetja umrædda heimild frá öðrum lögbýlum, undir eigin nafni eða annarra. Heimavinnsluaðili getur síðan unnið og selt alla þá mjólk sem hann framleiðir innan greiðslumarks og eru þeirri framleiðslu engar skorður settar aðrar en almennar heilbrigðis- og eftirlits kröfur.
4. Í viðtali við Guðmund Jón Guðmundsson, kúabónda í Holtsseli í Kastljósi í gærkvöldi, 12. ágúst kom fram nokkuð af rangfærslum sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Þar fullyrti Guðmundur að LK vildi helst ekki að heimavinnsla ætti sér stað. Í minnisblaði stjórnar LK frá því í janúar sl. segir „Landssamband kúabænda tekur undir þau sjónarmið, að heimavinnsla mjólkurafurða auki fjölbreytni á markaði, sé jákvæður valkostur fyrir neytendur og geti skapað sóknarfæri fyrir mjólkurframleiðendur“. Þá var vitnað í umsögn LK um búvörulagafrumvarpið. Sú umsögn var enn í smíðum þegar viðtalið var tekið. Varðandi mjólk sem fer í vöruþróun er það að segja, að hún telst að sjálfsögðu ekki til greiðslumarks eða heimavinnsluívilnunar, þar sem hún nær aldrei að verða markaðshæf vara. Í viðtalinu varð Guðmundi tíðrætt um að umfang heimavinnslunar nú væri aðeins brot úr prósenti mjólkurframleiðslunnar, sem litlu skipti. Samkvæmt frumvarpinu mun umrædd ívilnun ekki aðeins gilda fyrir núverandi heimavinnsluaðila eða núverandi greiðslumarkshafa, heldur öll lögbýli landsins.
F.h. Landssambands kúabænda
Sigurður Loftsson, formaður
Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri“