LS gefur út viðmiðunarverð á kindakjöti

Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda ákvað á fundi á mánudag að nýta heimild sína til að gefa út viðmiðunarverð á kindakjöti. Verðið gildir fyrir komandi sláturtíð. Verðskráin hækkar um 5% frá fyrra ári sem er nánast það sama og hækkun vísitölu neysluverðs á tímabilinu. Sölusamdráttur varð á innanlandsmarkaði 2009. Á heildina litið hefur innanlandssala verið með svipuðu móti fyrstu 6 mánuði þessa árs, en það sem af er sumri er þó betra en í fyrra. Vegna stóraukins útflutnings hefur afsetning hinsvegar gengið mun betur en 2009. Stjórnin telur því svigrúm til að hækka viðmiðunarverðið um sem nemur vísitöluhækkun og örlítið umfram það vegna almennra kostnaðarhækkana.

Fyrir liggur að ekki verður gerður samningur um birgðahald við sláturhúsin á komandi hausti.  Stefnan er að greiða innleggjendum beint þá fjármuni  sem húsin hafa fengið greidda vegna þess.  Sláturhúsin sem þegar hafa gefið út verðskrá hafa lækkað verðskrá sína sem því nemur.  Verðskrá LS tekur einnig mið af því.  Það er þó gert með þeim fyrirvara að heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins fáist til að greiða fjármunina út með áðurnefndum hætti.  Verð á ærkjöti er þó ekki lækkað með sama hætti þar sem að stjórnin taldi verð þess orðið óásættanlega lágt.  


Verðlagning á kindakjöti er frjáls en LS hefur heimild í búvörulögum til að gefa út viðmiðunarverð til bænda.

Verðskrána má nálgast hér að neðan.

Viðmiðunarverð LS 2010


 


back to top