Markaðsdagar verða 1. apríl og 1. nóvember
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur gefið út nýja reglugerð um viðskipti með greiðslumark í mjólk. Samkvæmt henni verða árlega haldnir tveir tilboðsmarkaðir með greiðslumark eins og eldri reglugerð kvað á um. Hins vegar eru dagsetningar færðar til þannig að markaðir verða 1. apríl og 1. nóvember. Þessi niðurstaða hlýtur að teljast mikil vonbrigði fyrir kúabændur en þeir hafa eindregið óskað eftir fjölgun markaðsdaga. Landssamband kúabænda hefur þegar lýst yfir gríðarlegum vonbrigðum með þetta atriði.
Í reglugerðinni er að finna nýtt ákvæði þess efnis að Matvælastofnun sé heimilt að staðfesta sölu á greiðslumarki frá einu lögbýli til annars lögbýlis innan sömu jarðatorfu, þ.e. tvíbýlis eða margbýlisjarðar, sbr. ákvæði landskiptalaga nr. 46/1941, enda sé salan til þess fallin að auðvelda kynslóðaskipti og að öðru leyti hagfelld.
Þeir bændur sem hyggja á greiðslumarksviðskipti á næsta markaði þurfa að hafa hraða hendur þar sem næsti tilboðsmarkaður verður haldinn þann 1. apríl n.k. eða eftir 30 daga. Frestur til að skila tilboðum til Matvælastofnunar rennur út þann 25. mars n.k.
Reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum