Markaðsdögum fyrir mjólkurkvóta verði fjölgað
Meðal þeirra ályktana sem samþykktar voru á Búnaðarþingi er ályktun um að beina því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að kvótamarkaður fyrir mjólk verði haldinn fjórum sinnum á ári. Í ályktuninni er lögð áhersla á að markaðsdögum fyrir greiðslumark í mjólk verði fjölgað í samráði við BÍ og LK.
„Knýjandi er fyrir mjólkurframleiðendur að ná fram jafnvægi í viðskiptum með greiðslumark. Nauðsynlegt er að hægt sé að eiga viðskipti með greiðslumark á síðari hluta kvótaárs svo hægt sé að aðlaga búrekstur vegna óvæntra aðstæðna,“ segir í ályktun Búnaðarþings. Stefnt er að því að stjórnir BÍ og Landssambands kúabænda afli gagna er varða nýtingu greiðslumarks og taki upp viðræður við stjórnvöld um fjölgun markaðsdaga.