MAST leggur til niðurskurð vegna smitandi barkabólgu
Matvælastofnun hefur sent atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu tillögu að aðgerðum sem í grundvallaratriðum byggist á að öllum gripum sem greinst hafa með smitandi barkabólgu verði slátrað en ákvörðun um frekari niðurskurð verði tekin á grundvelli niðurstaðna þeirra rannsókna sem nú standa yfir. Samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma, nr. 25/1993, er í höndum ráðherra að fyrirskipa ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að útrýma eða hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma, að fengnum tillögum Matvælastofnunar.
Eins og áður hefur komið fram voru tekin sýni á öllum kúabúum á landinu og þau rannsökuð með tilliti til mótefna gegn nautgripaherpesveiru. Engin mótefni fundust á öðrum en þeim tveimur búum sem sýkingin hafði þegar greinst á, þ.e.a.s. Egilsstöðum og Fljótsbakka á Fljótsdalshéraði. Sýni voru einnig tekin úr öllum gripum í Hrísey þar sem enn eru gripir sem að stofni til eru frá innflutningi á sæði og fósturvísum. Engin mótefni fundust í þeim. Jafnframt voru sýni tekin úr öllum nautum á Nautastöð BÍ á Hesti og reyndust þau einnig öll neikvæð. Sæði úr nauti frá Egilsstöðum sem verið hafði í Nautastöðinni var rannsakað ásamt sæði úr fleiri nautum. Öll sæðissýnin reyndust neikvæð. Í gær og fyrradag voru tekin blóðsýni úr öllum gripum eldri en sex mánaða á Egilsstöðum og Fljótsbakka. Niðurstöður rannsókna á þeim munu væntanlega liggja fyrir í næstu viku.
Matvælastofnun, Landssamband kúabænda og Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti hafa haft samvinnu um sýnatökurnar. Sjálfstætt starfandi dýralæknar hafa ásamt héraðsdýralæknum og ábúendum haft veg og vanda af framkvæmd þeirra. Blóðsýnatökurnar hafa í sumum tilvikum verið töluvert vandasamar þar sem um stóra nautgripi er að ræða sem lítið hefur verið átt við.