Matjurtir eru enn ómerktar
Ég hef fylgst rækilega með þessu og orðið fyrir miklum vonbrigðum. Það hefur engin breyting orðið því miður,“ segir Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda. Um síðustu mánaðamót tók gildi ný reglugerð, þar sem tiltekið er að ferskar matjurtir, sem seldar eru í verslunum, skuli vera merktar á umbúðum með upplýsingum um upprunaland. Það sama gildir um vörutegundir úr ferskum matjurtum þar sem þeim er blandað saman og/eða þær skornar niður.
Bjarni segist hafa farið reglulega í matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu og víðar síðan reglugerðin tók gildi. Upprunalandsins sé hvergi getið nema þar sem um sé að ræða íslenska framleiðslu.