Matvælastofnun hyggst herða eftirlit með merkingum

Á heimasíðu Matvælastofnunar kemur fram að stofnunin hyggst herða eftirlit með merkingum búfjár ef komandi áramót en hingað til hefur verið látið nægja að koma á framfæri ábendingum um lagfæringar. Stofnunin hyggst banna alfarið flutning sláturhúsa á ómerktum gripum til slátrunar og komi slíkt til verður kjötið dæmt óhæft til manneldis í samræmi við ákvæði reglugerðar. Jafnframt verður í auknum mæli um bann á flutningi að ræða frá þeim aðilum er ekki fara eftir ákvæðum reglugerðar um merkingar búfjár.
Sem betur fer eru þessu mál í góðu lagi hjá miklum meiri hluta bænda en því miður eru ávallt einhverjir svartir sauðir innan um.
Tilkynnig Matvælastofnunar fer hér á eftir:

„Árið 2005 tók gildi reglugerð nr. 289/2005 um merkingar búfjár. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar, er umráðamaður búfjár ábyrgur fyrir því að allt búfé sem alið er á hans vegum sé merkt innan tilskilins tíma sem tilgreindur er í reglugerðinni. Ekki er þó nauðsynlegt að einstaklingsmerkja grísi og alifugla.


Undanfarin ár hefur töluvert verið um tilkynningar til Matvælastofnunar vegna ómerktra nautgripa og sauðfjár frá búfjáreftirlitsmönnum og eftirlitsdýralæknum í sláturhúsum. Á meðan bændur voru að aðlagast nýrri reglugerð um merkingar búfjár var látið nægja að upplýsa viðkomandi um gildandi reglur með ábendingu um bætt vinnubrögð og hvaða afleiðingar það fæli í sér ef um áframhaldandi brot yrði að ræða. Á þessum tíma hafa flestir bændur bætt búfjármerkingarnar sínar og fylgja eftir ákvæðum reglugerðar nr. 289/2005.


Eftir næstu áramót verður eftirfylgni Matvælastofnunar vegna brota á reglugerðinni hert til muna. Þannig mun stofnunin fylgjast með að rekstraraðilar sláturhúsa fari eftir ákvæðum reglugerðarinnar er banna þeim að taka til flutninga ómerkt búfé sem og setja afurðir af slíku fé á almennan markað. Í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar mun ómerktu búfé sem kemur í sláturhús verða slátrað og takist ekki að rekja uppruna dýrsins innan 24 klst. verða afurðir sem dæmdar óhæfar til manneldis, þ.e. skrokkurinn fær ekki stimpil um heilbrigðisskoðun.


Af gefnu tilefni skal það tekið fram að það kallast ekki merking á búfé að koma með merkin meðferðis í poka í sláturhúsið. Slík telst ekki fullnægjandi. Þá er skylt að merkja kálfa og sauðfé innan 30 daga frá fæðingu, en borið hefur á því að bændur merki gripi sína í stórum hópum rétt fyrir slátrun. Engu að síður er rétt og skylt að endurmerkja gripi ef merkin detta úr gripum.


Matvælastofnun mun jafnframt í auknu mæli beita 11. gr. reglugerðar nr. 289/2005 og stöðva flutning búfjár frá þeim bæjum þar sem merkingum er verulega ábótavant. Upplýsingum um slíkt verður dreift til rekstraraðila allra sláturhúsanna, þar sem þeim verður gerð grein fyrir að flutningar séu óheimilir og að flutningar verði ekki heimilaðir að nýju fyrr en eftir að könnun Matvælastofnunar á merkingum og skráningum hefur leitt í ljós að ákvæði reglugerðarinnar séu uppfyllt.“


back to top