Matvælastofnun kærir níu umráðamenn nautgripa fyrir brot á reglum um útivist
Á vef Matvælastofnunar kemur fram að stofnunin hefur nú kært níu forráðamenn/eigendur nautgripa til lögreglu. Þessi aðilar sinntu ekki tilmælum stofnunarinnar um að tryggja nautgripum sínum útivist eftir að þeim höfðu borist athugasemdir þar að lútandi. Samkvæmt reglugerð um aðbúnað nautgripa skal tryggja öllum gripum, nema graðnautum eldri en sex mánaða, átta vikna útivist hið minnsta ár hvert.
Í lögum um dýravernd segir að tryggja skuli dýrum eðlilegt frelsi til hreyfingar samkvæmt viðurkenndri reynslu og þekkingu. Matvælastofnun telur að þeir sem byrgja gripi sína inni allt árið séu að brjóta reglugerð um aðbúnað nautgripa sem og ákvæði dýraverndunarlaga að því er fram kemur á vefsíðu Matvælastofnunar. Í reglugerð um aðbúnað nautgripa segir brot gegn ákvæðum hennar varði sektum eða fangelsi ef sakir eru miklar.