Meira en fjórðungur mjólkurinnar frá búum með mjaltaþjóna
Þrátt fyrir að lítið hafi selst af mjaltaþjónum hér á landi á síðustu tveimur árum, hefur hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónabúum aukist samhliða auknum afurðum í þessum búum hér á landi. Þetta kemur fram í nýrri samantekt frá tæknihópi NMSM, en NMSM eru mjólkurgæðasamtök afurðastöðva á Norðurlöndunum. Samantektin er birt á vef Landssmbands kúabænda (naut.is). Þar kemur fram að um síðustu áramót hafi hlutfall mjólkur frá kúabúum hér á landi með mjaltaþjóna numið 26,4% af heildarframleiðslu ársins 2010 og er einungis Danmörk með hærra hlutfall mjólkur á heimsvísu eða 26,9%. Við þetta má bæta að hér á Suðurlandi er þetta hlutfall hærra en af framleiðslu ársins 2010 komu 28,1% frá búum með mjaltaþjóna eða rúmlega 13,5 milljónir lítra.
Alls voru, um síðustu áramót, mjaltaþjónar á 14,3% íslenskra kúabúa sem er næst hæsta hlutfall á Norðurlöndunum á eftir Danmörku þar sem 22,2% búanna eru með mjaltaþjónum. Í Svíþjóð er þetta hlutfall 12,8% og minna en 6% í bæði Noregi og Finnlandi. Alls voru um síðustu áramót 33 þúsund kúabú á Norðurlöndunum en einungis um þrjú þúsund þeirra voru með mjaltaþjóna að því er fram kemur í samantektinni. Hér á Suðurlandi voru um síðustu áramót 15,9% kúabúa með mjaltaþjóna.
Ef horft er til stærðar mjaltaþjónabúanna þá eru lang stærstu kúabúin í Danmörku þar sem að jafnaði eru 2,5 mjaltaklefar á hverju búi. Næst stærstu búin eru í Svíþjóð með 1,5 mjaltaklefa pr. bú en svo koma hin Norðurlöndin svotil öll eins með um 1,2 mjaltaklefa að jafnaði á hverju búi.
Nýting mjaltaþjónanna er afar ólík þegar horft er til framleiðslu þeirra á milli Norðurlandanna. Þar kemur sterkt fram að nýting mjaltatækninnar hér á landi er langt frá því sem best lætur. Mesta framleiðsla í mjaltaþjóni hér á landi árið 2010 var um 460 þúsund lítrar en mesta framleiðslan á Norðurlöndunum var í Danmörku með yfir eina milljón lítra frá hverjum mjaltaklefa. Skýringanna er auðvitað fyrst og fremst að leita í mun á afköstum kúnna sjálfra.
Ef horft er frá gríðarlegum mun á afurðum kúakynjanna sjálfra er engu að síður ljóst að nýtingu mjaltaþjóna hér á landi má auka verulega. Meðalframleiðslan frá mjaltaþjónaklefum hér á landi árið 2010 nam ekki nema 285 þúsund lítrum sem er 38% minni framleiðsla en þar sem mestar afurðir voru. Út frá þessu má ætla að heildar framleiðslugeta mjaltaþjóna hér á landi ætti að geta farið í amk. 45% af landsframleiðslunni, án þess að fjárfesta þyrfti í einu einasta mjaltatæki segir í smantektinni.