Meirihluti landsmanna andvígur innflutningi nýs kúakyns
Meirihluti landsmanna er andvígur því að leyft verði að flytja inn nýtt mjólkurkúakyn en LK hefur kannað hug landsmanna til hugsanlegs innflutnings á nýju mjólkurkúakyni.
Niðurstaðan er sú að 54 til 63% eru á móti innflutningi á nýju kyni og íslenskir neytendur eru nánast 100% á móti innfluttri mjólk. Neytendur eru almennt ánægðir með íslenskar mjólkurvörur. Sjónarmiðin eru hins vegar að minnsta kosti tvö en neytendur vilja einnig að vörurnar séu ódýrar. Þetta kom fram á aðalfundi LK sem nú stendur yfir á Akureyri.
Formaður Landssambands kúabænda telur líklegt að eftir nokkur ár verði 2 kyn ræktuð í landinu. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra er ekki sammála formanni Landssambands kúabænda og segir að hér verði aldrei fleiri en eitt kúakyn.