Meistaravörn við auðlindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands

Meistaravörn Óðins Gíslasonar fer fram í Ásgarði, í Ársal á 3. hæð, á Hvanneyri, föstudaginn 14. september 2007, kl. 14.00 Verkefni Óðins er á sviði búvísinda og nefnist „Samanburður heyskaparaðferða á íslenskum kúabúum”.
Markmiðið með þessari rannsókn var að kanna vinnu og kostnað við mismunandi heyskapar- og geymsluaðferðir á íslenskum kúabúum. Einnig að greina hvernig kostnaður deilist á ákveðin verk heyskaparins og hvaða þættir valda breytileika við afköst og kostnað. Fyrst og fremst var horft til samanburðar á stæðuverkun og rúllu-og ferbaggaverkun. Reiknaður var allur kostnaður frá og með slætti og þar til heyið er frágengið í geymslu, að geymslukostnaði meðtöldum, plasti og byggingum.
Gagnasafnið samanstendur af gögnum frá 22 búum.  Fimm búum sem verka í stæður, flatgryfjur og útistæður (hópur 1), níu búum sem verka í rúllur og eiga heyskaparvélar sjálf eða í sameign með öðru búi (hópur 2) og átta búum sem fá verktaka til að rúlla eða binda í ferbagga (hópur 3).  Bændur önnuðust sjálfir tímaskráningar á öllum verkum heyskaparins yfir eitt sumar.
 
Helstu niðurstöður eru þær að meðalkostnaður innan hóps 1 var 8,5 ± 3,4 kr/kg þe., hóps 2: 8,9 ± 2,0 kr/kg þe. og hóps 3: 7,9 ± 1,0 kr kg þe.  Meðalkostnaður af byggingum var 4,0 ± 2,6 kr/kg þe.  Verktakar voru að meðaltali afkastameiri og ódýrari en ynnu bændur með eigin vélum.  Bæir sem áttu tæki í sameign voru að meðaltali með 2,6 kr/kg þe. lægri heyskaparkostnað en aðrir bæir í hóp 2.
 
Það er því ályktað að notkun verktaka borgi sig, en sameign tækja geti jafnvel skilað enn meiri ábata en notkun verktaka við hirðingu eingöngu.  Stæðuheyskapur virðist geta verið ódýrasta form heyskapar séu ekki byggðar gryfjur, verkað í útistæður og tækjakostnaði haldið niðri með sameign tækja eða nýtingu verktaka.
 
Meistaranámsnefndin er skipuð Bjarna Guðmundssyni, prófessor, sem er aðaleiðbeinandi og Ríkharð Brynjólfssyni prófessor. Prófdómari er Dr. Daði Már Kristófersson, sérfræðingur hjá Bændasamtökunum.
 
Deildarforseti auðlindadeildar, Áslaug Helgadóttir prófessor, stjórnar athöfninni.


back to top