Mest kjöt eftir á í Gýgjarhólskoti

Niðurstöður skýrsluhalds sauðfjárræktarinnar fyrir árið 2012 hafa verið uppfærðar á vef Bændasamtakanna. Þar kemur m.a. fram að á búum með 100 skýrslufærðar ær eða fleiri voru afurðir eftir kind mestar hjá Eiríki Jónssyni í Gýgjarhólskoti. Hjá honum skilaði hver á með lambi 43,9 kg. Næst í röðinni eru Indriði og Lóa á Skjaldfönn með 39,4 kg eftir hverja á með lambi og þriðja bú í röðinni er hjá Guðbrandi og Lilju á Bassastöðum en þar skilaði hver á með lambi 38,3 kg.
Hjá Eiríki í Gýgjarhólskoti var t.d. þyngsti dilkurinn í haust 33,7 kg og alls vigtuðu 14 dilkar 30 kg eða meira. Enginn smáræðis vænleiki þar á ferð.
Ef litið er til gerðar stendur félagsbúið í Flögu efst með 11,82 fyrir gerð, í öðru sæti er Dagbjartur Bogi Ingimundarson á Brekku með 11,53 og í þriðja sæti er Þór Jónsteinsson á Skriðu með 11,35. Af sunnlenskum búum er Ketill Ágústsson á Brúnastöðum efstur með 11,15 sem skilar honum 6. sæti á landsvísu. Ekki þarf að taka fram hversu gríðarlega góð gerð er á þessum búum en með meira en 11 fyrir gerð þýðir að meðallambið flokkast betur en í U.

Sjá nánar:
Niðurstöður skýrsluhalds sauðfjárræktarinnar


back to top