Mikið öskufall undir Eyjafjöllum í dag
Mikið öskufall hefur verið í nótt og dag undir Eyjafjöllum á svæði sem markast af Sauðhúsvelli í vestri og Skógum í austri. Þar hefur verið sem um niðdimma nótt þó annars staðar á landinu hafi verið bjartviðri og sunnanlands hafi gosmökkurinn sést vel og víða að.
Veðurstofa Íslands spáir því að vindur snúist í vestlæga átt í kvöld og nótt og telur að þá megi búast við öskufalli austur af Eyjafjallajökli.
Líkur benda til þess að það dragi úr gosinu í Eyjafjallajökli á næstu dögum þar sem „eldsneyti“ í katlinum fer að klárast. Gosið getur samt tekið við sér að nýju að nokkrum dögum liðnum.
Líkur á flóðum hafa að sama skapi minnkað að mati Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings sem flaug yfir gosstöðvarnar með Landhelgisgæslunni í dag.
Hann segir að þarna gjósi mjög kröftugu sprengigosi í sprungu sem sé um kílómetri að lengd. Sigketillinn er um 800 metra breiður, gosmökkurinn nái í 6-8 kílómetra hæð og hann sé mjög dökkur og mikil gjóska sé í honum.
Magnús Tumi segir að niðurstöður flugsins í dag bendi til að minni líkur séu á hlaupi niður Gígjökul næstu klukkustundir og daga. Sigkatlarnir séu orðnir það stóri að ísbráðnun sé minni og auk þess séu þeir hálffullir af ösku. Því fari orka aðallega í að búa til meiri ösku og senda hana upp í gosmökkinn. Öskufallið hafi því síst minnkað. Erfitt sé að spá fyrir um þróunina næstu daga en líkur séu á því að það dragi úr gosinu. Kvikan virðist koma af litli dýpi. GPS mælingar bendi til að hún komi af um kílómetra dýpi undir fjallinu. Þar geti ekki verið stór geymir og því hljóti að fara að draga úr eldsneytinu. Hann væri hissa ef krafturinn væri svona mikill eftir viku en að gæti haldir óbreytt í einhverja daga. Gos sem þessi geti þó tekið sér hlé og tekið við sér á ný eins og gerðist í síðasta gosi í Eyjafjallajökli sem stóð með hléum í rúmt ár frá 1821-1823.