Mikið öskufall undir Eyjafjöllum nú
Talsvert öskufall var á svæðinu frá Ásólfsskála að Sólheimajökli í nótt. Skyggni hefur verið á bilinu fjögur til fimm hundruð metrar en á köflum hefur það farið niður í um eitt hundrað metra. Í morgun barst tilkynning frá Þorvaldseyri um nær ekkert skyggni á svæðinu og að sögn Magnúsar Ragnarssonar, lögreglumanns á Hvolsvelli er skyggnið um einn metri. Núna er mikið öskufall undir Eyjafjöllum enda hefur verið norðanátt yfir gosstöðvunum sem samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands heldur áfram í dag og því hætt við öskufalli undir Eyjafjöllum og jafnvel yfir Vestmannaeyjar. Þá er mikið öskumistur í Mýrdal.
Ekki hefur verið hægt að hleypa umferð á veginn yfir Markarfljót þó að hann sé tilbúinn vegna öskufalls. Flutningabílar hafa beðið eftir að komast yfir veginn, en þeir geta ekki farið yfir gömlu brúna yfir Markarfljót. Mjólkurbíll ætti að fara í dag og sækja mjólk til bænda. Ekki mun þó skapast neitt vandræðaástand þó að það dragist til morguns.