Mikill hugur í ungum bændum
Stofnfundur Félags ungra bænda á Suðurlandi fór fram sl. helgi, laugardaginn 27. febrúar. Fundargestir komu af öllu starfssvæði samtakanna en það spannar yfir Austur-og Vestur Skaftafellssýslur, Rangárvallasýslu og Árnessýslu. Greinilega er mikill áhugi á landbúnaði meðal ungs fólks á Suðurlandi og mikill sóknarhugur í ungum bændum en á fundinn mættu fast að 80 manns.
Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundinum:
Stofnfundur Félags ungra bænda á Suðurlandi, haldinn í Árhúsum á Hellu 27. febrúar 2010, skorar á alþingi að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka þar sem djúp andstaða þjóðarinnar liggur fyrir og ljóst að innganga mun koma illa við nýliðun og sóknarmöguleika íslensks landbúnaðar.
Stofnfundur Félags ungra bænda á Suðurlandi, haldinn í Árhúsum á Hellu 27. febrúar 2010, beinir því til stjórnar SUB að beita sér fyrir því að jarðar-og ábúðarlög verði endurskoðuð með það í huga að tryggja landbúnaði á Íslandi nauðsynlegan aðgang að jarðnæði.
Greinargerð:
Það er án efa þjóðhagslega hagkvæmt að nýta þá auðlind sem felst í jarðnæði til framleiðslu matvæla. Undanfarin ár hefur jarðaverð hækkað mjög. Verð jarða er í flestum tilvikum svo hátt að kaupverð verður ekki greitt með tekjum af almennum búrekstri. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir framtíð íslensks landbúnaðar, og þjóðina í heild, að kynslóðaskipti geti varla farið fram á bújörðum nema með allt að því óeðlilegum afsláttarkjörum.
Stofnfundur Félags ungra bænda á Suðurlandi, haldinn í Árhúsum á Hellu 27. febrúar 2010, beinir því til stjórnar SUB að beita sér fyrir því að stjórnvöld sinni þeirri samfélagslegu skyldu að skilgreina til framtíðar þau landsvæði sem nýta ber til landbúnaðar.
Greinargerð:
Með tilliti til vakningar um mikilvægi matvælaöryggis í heiminum og á Íslandi er nauðsynlegt að skilgreina gott landbúnaðarland, sérstaklega í aðalskipulagi sveitafélaga. Með því móti má varðveita það fyrir komandi kynslóðir.
Stofnfundur Félags ungra bænda á Suðurlandi, haldinn í Árhúsum á Hellu 27. febrúar 2010, beinir því til stjórnar SUB að beita sér fyrir því að komið verði á raunverulegum nýliðunarstyrkjum til að greiða fyrir endurnýjun í landbúnaði.
Greinargerð:
Kaup á greiðslumarki er þungur biti sam margir bændur þurfa að takast á við í upphafi búskapar. Vegna hárra skuldsetningar njóta yngri bændur ekki sömu kjara við kaup á greiðslumarki og eldri bændur, í formi lægri skatta vegna afskrifta. Þetta þýðir að yngri bændur geta ekki greitt jafn hátt verð fyrir greiðslumark og vinnur því gegn eðlilegri nýliðun í viðkomandi greinum. Í þessu sambandi má horfa til nágrannalanda okkar þar sem nýliðunarstyrkjum er beitt markvisst, m.a. með því að tolla 1% af viðskiptum með greiðslumark sem síðan er deilt til yngri bænda.
Þá var kosið í stjórn félagsins og hana skipa:
Stefán Geirsson bóndi í Gerðum í Flóa, formaður
Ragnhildur Sveinbjarnardóttir bóndi í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum, ritari
Bjarni Ingvar Bergsson bóndi í Viðborðsseli á Mýrum, gjaldkeri