Mikilvægt að fá lungu til rannsóknar

Að því er fram kemur á vef Matvælastofnunar bendir nú margt til þess að kindur undir Eyjafjöllum og í Mýrdal hafi veikst af lungnapest eins og við sögðum frá fyrr í vikunni. Enn hefur þó ekki verið staðfest að um venjulega lungnapest sé um að ræða.
Ekki eru sjáanleg tengsl milli þeirra bæja þar sem veikin hefur komið upp. Þrjár kindur af fjórum sem krufnar voru af dýralækni voru með einkenni í lungum sem bentu til lungnapestar, en sú fjórða var með einkenni sem ekki eiga skylt við lungnapest. Búið var að gefa kindunum sem drápust sýklalyf og því var ekki hægt að rækta bakteríur frá líffærum úr þeim.

Lungnapest er lungnabólga í sauðfé og geitum af völdum gramneikvæðra baktería. Áður fyrr var Pasteurella multocida algengasta orsök lungnapestar í sauðfé og þá helst í eldra fé. Á seinni árum hefur Mannheimia haemolytica (áður Pasteurella haemolytica) verið einangruð í vaxandi mæli og þá virðist pestin ekki bara leggjast á eldra fé. Þá hefur einnig sést lungnapest og jafnvel bráður eða ofurbráður sjúkdómur af völdum Bibersteinia trehalosis (áður Pasteurella trehalosis, þar áður einnig nefnd Pasteurella haemolytica).


Allar þessar bakteríur finnast í efri hluta öndunarfæra á heilbrigðu sauðfé án þess að valda sjúkdómi. Við vissar umhverfisaðstæður getur blossað upp sjúkdómur í hjörðum, streita er talin mikilvægasta orsökin ásamt þrengslum, miklum hita, óvæntum kulda eða raka.
 
Einkenni lungnapestar geta verið allt frá því að kindurnar steindrepist fyrirvaralaust, en líklegra er að sjá deyfð, lystarleysi, hita yfir 40°C og andnauð eða mæði. Oft sést rennsli frá nösum og augum. Undir lokin má sjá froðu í kjaftinum.


Ef áðurnefndar bakteríur eru orsök veikinda í kindum austan Markarfljóts núna verða allar vangaveltur um ástæðuna ágiskanir einar. Það er því mjög mikilvægt að fá til rannsóknar lungu úr veikum kindum eða kindum sem bráðdrepast til þess að komast eitthvað nær réttri greiningu. Ekki þýðir að senda líffæri úr kindum sem hafa verið meðhöndlaðar með sýklalyfjum, en þær mega hafa verið bólusettar.


back to top