Missa bændur stéttarfélag sitt?
Samkeppniseftirlitið birti 6. mars síðastliðinn úrskurð þar sem kveðið var upp úr með að Bændasamtök Íslands hefðu staðið að ólöglegu verðsamráði og brotið þar með samkeppnislög. Samkvæmt úrskurðinum eru Bændasamtökin samtök fyrirtækja og hafi þau viðhaft samkeppnishamlandi samráð, sem hafi meðal annars birst í ályktunum Búnaðarþings 2008 þar sem ályktað var að hækka þyrfti afurðaverð, en einnig hafi það samráð birst í viðtölum við forsvarsmenn Bændasamtakanna í fjölmiðlum þar sem þeir lýstu sömu skoðunum. Önnur gögn sem Samkeppniseftirlitið byggir úrskurð sinn á sýna jafnframt, að mati eftirlitsins, að starfsmenn Bændasamtakanna hafi unnið að því að þrýsta á um verðhækkanir. Séu það skýr og alvarleg brot á bannákvæðum samkeppnislaga.
Bændasamtökin hafa allt frá því að málið kom upp haldið því fram að Búnaðarþing og samtök bænda falli ekki undir ákvæði samkeppnislaga með þeim hætti sem Samkeppniseftirlitið byggir á. Fráleitt sé að gera þá kröfu að samkeppnislög gildi um starfsemi Bændasamtaka Íslands eins og hver önnur samtök fyrirtækja, í skilningi Samkeppniseftirlitsins, án tillits til þeirrar sérstöðu sem landbúnaður og þar með Bændasamtökin njóti, meðal annars í löggjöf um landbúnaðarmál. Á Búnaðarþingi 2009 var samstaða meðal þingfulltrúa um að hafna algjörlega þeirri túlkun Samkeppniseftirlitsins sem ákvörðun þess byggir á. Búnaðarþing geti ekki talist samtök fyrirtækja heldur sé það hagsmunaþing bænda. Bændasamtök Íslands séu stéttarsamtök bænda og fullkomlega eðlilegt að bændur komi saman og ræði sína hagsmuni enda sé beinlínis gert ráð fyrir því í lögum. Í því felist ekki samráð, frekar en þegar að Alþýðusamband Íslands heldur sitt ársþing.
Formaður Bændasamtakanna segir úrskurðinn vonbrigði
Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna segir úrskurðinn vera vonbrigði. „Bændasamtökin eru heildarsamtök allra bænda og búgreina. Ekkert í tilvísuðum málskjölum sem Samkeppniseftirlitið birtir bendir til að umræða og aðgerðir hafi verið á nokkurn hátt á skjön við þau megin markmið starfsemi okkar að sinna hagsmunagæslu fyrir bændur. Það vekur sérstaka athygli hve mikið er gert úr einstökum ummælum starfsmanna samtakanna sem hafa það hlutverk fyrst og fremst að vera ráðgjafar bænda og vekja athygli á stöðu þeirra. Það verkefni er okkur beinlínis ætlað lögum samkvæmt.“
Haraldur segir að hvergi í þeim umræðum sem vísað sé til í úrskurðinum séu nefndar tölur um hækkanir og hvergi sé rætt sérstaklega um einstakar búgreinar. Fyrst og fremst hafi verið rætt um hækkun aðfanga til bænda. „Ég hlýt því væntanlega áfram mega segja sem formaður Bændasamtakanna að áburður sé að hækka og fóður sé að hækka. En þegar ég verð spurður um hvaða áhrif það hefur þá verð ég að segja: ég veit það ekki. Að stofni til er málið reist á viðtali blaðamanns Morgunblaðsins við bændur. Ég geri mér ekki nokkra grein fyrir því hvernig Bændasamtökin geta borið ábyrgð á bændum í blaðaviðtölum.“
Á okkar ábyrgð að framleiða matHaraldur segir að úrskurður eftirlitsins komi á undarlegum tíma fyrir íslenska bændur, sem og fyrir íslenska þjóð. „Við upplifum afar sérstaka tíma. Efnahagslífið er lamað og bankakerfið hrunið. Flestir eru sammála um að eftirlitstofnanir brugðust. Gagnvart bændum hefur undanfarin ár verið gerð ítrekuð aðför. Ráðist var í lækkun á tollum og tollvernd íslensks landbúnaðar er nú mun lakari en norsks landbúnaðar svo dæmi séu tekin. Ráðist var sérstaklega gegn hvítakjötinu. Augljós afglöp eru gerð við tollalækkun gagnvart kjúklingum, sem alls ekki fást leiðrétt. Ríkisstjórnin samþykkir haustið 2005 að heimila hér enn frekari innflutning á búvöru, bæði með samningum við Evrópusambandið um gagnkvæmar tollalækkanir og yfirtöku á matvælalöggjöf sambandsins. Búvörusamningar eru brotnir. Samningar sem er sérstaklega ætlað að tryggja byggð og matarframleiðslu. Við hljótum að spyrja hvernig bændur eigi að mæta öllum þessu í einu ef á sama tíma á að brjóta niður samtök þeirra. Hvenær finnst stjórnvöldum vera nóg að gert til að lama landbúnaðinn?“
Haraldur segist ekki sjá stafkrók í úrskurði Samkeppniseftirlitsins sem dregur línur varðandi hvar verði látið staðar numið. „Við sjáum þar engar leiðbeiningar um hvernig breyta skuli starfsháttum samtakanna. Stjórnvöld sem að baki þessu standa eru að brjóta niður menningu sveitanna. Menning sveitanna sem byggir á samstarfi, samstöðu og því ábyrga hlutverki að framleiða mat.“
Bændasamtökin fengu lögmannsstofuna Lex til að vinna ítarlegar athugasemdir vegna ætlaðra brota þess á samkeppnislögum. Þær athugasemdir má nálgast hér.