Mjólk vissulega góð en staðan víða slæm

Hamrað hefur verið á því mörg undangengin ár í auglýsingum að mjólk sé góð og fáir andmæla því. En það kostar sitt að galdra fram þetta hvítagull sveitanna; uppbygging hefur verið töluverð í greininni, margir bændur hafa fjárfest mikið síðustu ár og erfitt ástand í þjóðfélaginu bitnar ekki síður á þeim en öðrum. Nú er svo komið að þriðjungur kúabúa hér á landi er talinn í verulegum fjárhagserfiðleikum. Ekkert bú hefur enn lagt upp laupana og svo virðist sem menn séu nokkuð bjartsýnir á að til þess þurfi ekki að koma á næstunni þrátt fyrir svo slæma fjárhagsstöðu sumra að þau séu í raun mjög nálægt því að komast í þrot.

En, vel að merkja, þá er töluverður meirihluti þeirra sagður standa býsna vel. Alls eru á áttunda hundrað kúabú hér á landi. Þriðjungur gæti því verið 200-250 bú. Eins og nærri má geta eru mestu erfiðleikarnir þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað síðustu ár. Bændur sem byggt hafa ný fjós eða stækkað, keypt ný tæki, mjólkurkvóta og jafnvel land. Að ekki sé talað um þá sem hafa tekið erlend lán.
 
„Það er með okkur eins og annan atvinnuveg í landinu og mörg heimili; þeir sem staðið hafa í miklum framkvæmdum síðustu ár eru mjög skuldugir og staðan erfið. En það yrði ansi blóðugt ef þeir sem hafa staðið í því að byggja upp, og eru þar af leiðandi með bestu aðstöðuna, þyrftu að hætta búskap. Enda held ég að svo verði ekki,“ sagði Sigurgeir Hreinsson, kúabóndi á Hríshóli og formaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar, við Morgunblaðið.

Stærstu mjólkurframleiðslusvæðin eru Suðurland og Norðausturland og er staðan sambærileg í báðum landshlutum. Í nýjasta Bændablaðinu segir Runólfur Sigursveinsson hjá Búnaðarsambandi Suðurlands að 40-50 kúabú eigi í verulegum erfiðleikum, en þau eru alls 260 á svæðinu. Runólfur upplýsir að nær öll þau 40-50 bú sem eigi í erfiðleikum með skuldbindingar sínar hafi fengið frestun á afborgunarhluta erlenda lánahlutans og sumir einnig á vaxtaþættinum. Misjafnt sé hve fresturinn sé langur, oft tveir til sex mánuðir. Runólfur segir að álíka mörg bú séu allverulega skuldsett en muni komast í gegnum ástandið án skuldbreytinga eða annarra sértækra ráðstafana en tveir þriðju búanna, um 170, skuldi ekki mikið og sigli tiltölulega lygnan sjó í gegnum kreppuna.

Vignir Sigurðsson, ráðunautur hjá Búgarði – ráðgjafarþjónustu á Norðausturlandi, segir að um 100 bú á svæðinu séu ekki í rekstrarvanda vegna skulda. Alls eru 162 kúabú á svæðinu, hann segir ríflega þriðjung mikið skuldsettan og 15-20 bú í verulegum rekstrarerfiðleikum af þeim sökum. Sigurgeir Hreinsson segir mikla óvissu ríkjandi hjá bændum almennt. Jákvætt sé að heyfengur hafi verið mjög góður í fyrra og nóg til, en hvað reksturinn varði séu þeir eiginlega í lausu lofti og erfitt sé að átta sig á þróuninni. Ef enn harðni á dalnum í efnahagslífinu í vor, eins og sumir spái, geti það haft slæmar afleiðingar. „Það eru ekki til neinar töfralausnir fyrir kúabændur heldur þarf að skoða framleiðsluatvinnuvegina í heild,“ segir Sigurgeir Hreinsson.

Verðhrun á kvóta
Ver’ á mjólkurkvóta er mjög lágt og viðskipti undanfarið lítil sem engin. Um áramót hafði um 1 milljón lítra skipt um eigendur frá upphafi verðlagsársins 1. september en undanfarin ár hafa viðskiptin verið um 2 milljónir lítra á sama tíma og ekki mörg ár síðan samanlögð viðskipti um áramót voru 3 milljónir lítra. Verð á lítra fór hæst í 405 krónur um mitt ár 2005. Það þótti reyndar óeðlilega hátt en hefur síðan farið lægst í 270 kr. og upp í 320. Í september sl. var verðið á lítranum 304 kr. en er nú 238 kr. Það er lækkun um 50 kr. frá því upplýsingar voru birtar síðast og viðskiptin svo lítil að reikna má með að upphæðir í síðustu samningum séu enn lægri en meðalverðið. Líklega er ekki fjarri lagi að raunverð á kvóta hafi lækkað um helming á stuttum tíma, skv. upplýsingum Bændasamtaka Íslands.

Morgunblaðið 19. janúar 2009 / Skapti Hallgrímsson


back to top