Mjólka kaupir Vogabæ og flytur starfsemina í Hafnarfjörð

Mjólka hefur fest kaup á matvælafyrirtækinu Vogabæ og hefur mjólkurstöð Mjólku verið flutt í verksmiðjuhúsnæði Vogabæjar við Eyrartröð 2a í Hafnarfirði. Vogabær og Mjólka munu halda áfram að framleiða undir eigin merkjum. „Auk þeirra augljósu samlegðaráhrifa sem felast í að sameina dreifingu, skrifstofuhald og stjórnun þessara tveggja fyrirtækja þá leysum við um leið mjög brýnan húsnæðisvanda sem hefur verið að há eðlilegum vexti Mjólku undanfarna mánuði,“ segir Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku.

Vogabær er leiðandi í framleiðslu á sósum og ídýfum hér á landi og selur framleiðslu sína undir merkjum Vogabæjar og E. Finnsson. Fráfarandi eigendur og stjórnendur Vogabæjar munu starfa áfram hjá fyrirtækinu. 

Mjólkurstöðin rúmast vel í verksmiðjuhúsnæði Vogabæjar án þess að þrengt verði um of að þeirri starfsemi sem fyrir er,“ segir Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku. Stefnt er að því að ljúka flutningi mjólkurstöðvar Mjólku í Hafnarfjörð á næstu vikum og í kjölfarið mun Mjólka kynna nýjar og metnaðarfullar framleiðsluvörur sem hafa verið í þróun undanfarin misseri en sem ekki hefur verið hægt að hefja framleiðslu á í núverandi húsnæði. Samhliða kaupunum á Vogabæ er lokið fjárhagslegri endurskipulagningu á Mjólku og er fyrirtækið nú vel í stakk búið til að takast á við áframhaldandi samkeppni í mjólkuriðnaði.
 
„Það er ljóst að þær aðgerðir sem nú hefur verið ráðist í styrkja verulega þær stoðir sem Mjólka hvílir á og eru enn einn áfanginn í áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins,“ segir Ólafur M. Magnússon framkvæmdastjóri Mjólku.


back to top