Mjólkað á ný í Stærra-Árskógi

Mjólkurframleiðsla er nú hafin á ný í Stærra-Árskógi á Árskógsströnd í Eyjafirði, en eins og menn muna brann fjósið á bænum ásamt bróðurparti bústofnsins um miðjan nóvember sl. Þá þegar var ákveðið að hefja uppbyggingarstarf og var nýtt fjós risið á grunni þess gamla þann 17. janúar sl., réttum tveimur mánuðum eftir brunann.  

Í morgun var síðan sótt mjólk í fyrsta skipti í nýtt fjós og eru ekki liðnir 3 mánuðir frá brunanum. Eru þess væntanlega fá dæmi um að svo skjótlega hafi gengið að koma mjólkurframleiðslu í gang aftur eftir slík stóráföll. Búnaðarsamband Suðurlands tekur undir óskir Landssambands kúabænda til handa Guðmundi Geir Jónssyni, Freydísi Ingu Bóasdóttur og fjölskyldum þeirra um velfarnað framvegis um leið og þeim er óskað til hamingju með áfangann.


back to top