Mjólkurinnleggið tók kipp í ágúst

Það sem af er ári eða til og með viku 37 hefur framleiðsla mjólkur numið 90,7 milljónum lítra sem er nánast sama framleiðsla og á sama tíma í fyrra. Munar aðeins 105 þús. lítrum eða 0,12% og þá þannig að framleiðslan er minni í ár. Á þessu ári hefur mjólkurinnlegg verið minna en í fyrra alla mánuði ef undanskildir eru maí og ágúst. Innlegg í ágúst var 535 þús. lítrum meira en í fyrra og það sem af er september er framleiðslan einnig meiri. Þarna getur þrennt komið til. Í fyrsta lagi geta fleiri kýr hafa borið á þessum tíma, fleiri kýr eru mjólkaðar en á sama tíma í fyrra eða kýrnar hafa náð að halda betur á sér.
Ef litið er á mjólkurinnlegg á Selfossi er það 1.854 þús. lítrum eða 5,2% minna í lok viku 37 en á sama tíma 2010. Stærsta skýringin á þessu er sú að frá og með viku 37 í fyrra hefur öll mjólk úr A-Skaftafellssýslu verið innvegin á Egilsstöðum. Það sem er athyglisvert í ár er að þrátt fyrir þetta er vikuinnlegg á Selfossi nú komið upp fyrir það sem var í fyrra og var t.d. 6,9% meira í viku 37 en í sömu viku í fyrra.
Þegar litið er til sölu mjólkurvara síðustu 12 mánaða hefur sala aðeins tekið við sér á ný og sýna vöruflokkarnir rjómi, ostar og duft mestan framgang. Sala mjólkurvara á próteingrunni síðustu 12 mánuði var 114,0 milljónir lítra og sala á fitugrunni var 110,4 milljónir lítra. Greiðslumarkið nú er 116 milljónir lítra og því stefnir enn í sömu niðurstöðu og fyrr í sumar, þ.e. að skerða þurfi greiðslumark mjólkurinnar á komandi ári.


back to top