Mörg hitamet slegin undanfarna daga
Mjög hlýtt hefur verið á landinu undanfarna daga og t.d. mældist 22,6°C hiti í Ásbyrgi kl. 15.00 í gær samkvæmt sjálfvirkum mæli og hámarkshitinn klukkutímann á undan var 23°C. Þetta virðist vera hitamet hér á landi í apríl en eldra metið var 21,8°C á Sauðanesi 18. apríl 2003, að því er kemur fram á bloggsíðu Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings.
Það skal þó tekið fram að á heimasíðu Veðurstofunnar segir, að villur geti leynst í gögnum, sjálfvirkra stöðva, sem birt eru um leið og þau berast án þess að farið hafi verið yfir þau.
Í fyrradag mældist mesti hiti sem mælst hefur í apríl í Stykkishólmi þegar hitinn fór upp í 16,4 stig en mesti hiti sem þar hefur áður mælst í apríl er 15 stig árið 1942.
Þessi aprílmánuður ætlar að komast á spjöld veðursögunnar, því einnig var afar hlýtt staðbundið á Austfjörðum fyrst í mánuðinum, nánar tiltekið þann 3. þegar hiti í Neskaupstað fór yfir 21 stig á sjálfvirkum mæli þar í bæ.
Við viljum benda þeim sem áhugasamir eru um veður á skemmtilegar bloggsíður þeirra Sigurðar Þórs Guðjónssonar (nimbur.blog.is) og Einars Sveinbjörnssonar (esv.blog.is) en þaðan eru þessar upplýsingar að mestu fengnar.
Næsta sólarhringinn spáir Veðurstofan suðaustan 5-10 m/s suðvestanlands, en annars hægari. Skýjað og úrkomulítið sunnan- og vestanlands, en dálítil rigning eða súld á morgun. Afram léttskýjað norðaustanlands. Hiti 13 til 20 stig að deginum, hlýjast fyrir norðan og austan.