MS flytur út ost og Hleðslu

MS flutti á dögunum út gám af gouda-osti til Hollands og er það í fyrsta skipti í tólf ár sem fastur ostur er fluttur út frá Íslandi en síðast var fastur ostur fluttur út að einhverju ráði árið 1992. Um er að ræða tilraunaverkefni og segir Jón Axel Pétursson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS að verið sé að kanna markaðsmöguleika með útflutningnum. Gríðarlega góður gangur hefur verið í sölu á skyri í Finnlandi upp á síðkastið og er það hvetjandi til að áframhaldandi markaðsstarfs.

Kaupendur hafi verið mjög ánægðir með gæði ostsins en ekki er ljóst á þessari stundu hvaða framhald verður á. Meðal þess sem hefur þar áhrif er að útflutningskvóti til ESB-landa er takmarkaður og skyrútflutningurinn til Finnlands fer langt með að ganga á þann kvóta allan. Sótt hefur verið um viðbótarkvóta og verður fundað um þau mál nú 20. september.


Hleðsla flutt til Finnlands
Þá mun útflutningur á mysuprótíndrykknum Hleðslu til Finnlands hefjast um komandi mánaðamót. Móttökurnar við Hleðslu hafa verið gríðarlega góðar frá því drykkurinn var settur á markað. Hleðsla fékk meðal annars gullverðlaun í sínum flokki á mjólkurvörusýningunni í Herning í nóvember í fyrra. Ekki er langt síðan að mysa, sem Hleðsla er framleidd úr, var aukaafurð sem var til óþurftar og vandræða í mjólkurvinnslu hér á landi. Hleðsla er ekki skilgreind sem mjólkurafurð og hefur því ekki áhrif á þann kvóta sem mjólkurútflytjendur eru að nýta.


Smjör, undanrennuduft, nýmjólkurduft og skyr, hafa síðustu misseri verið nálega einu mjólkurafurðirnar sem fluttar hafa verið út svo einhverju nemi. Þó hefur einnig verið flutt út nokkuð magn af ferskum ostum til Bandaríkjanna. Því verður athyglisvert að fylgjast með viðtökum við Hleðslu í Finnlandi og mögulegum frekari útflutningi á mjólkurafurðum á næstu misserum


back to top