MS fór ekki út fyrir ramma samkeppnislaga

Samkeppniseftirlitið hefur lokið rannsókn sinni á meintri misnotkun Mjólkursamsölunnar á markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir framleiðslu og heildsölu á mjólkurvörum. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er sú að þau gögn sem aflað var í málinu gefi til kynna að MS hafi brugðist við aukinni samkeppni á markaði sem ríkti eftir innkomu Mjólku á markað árið 2005 og stóð til ársins 2009 af festu og afli. Hin aukna samkeppni hafi veitt Mjólkursamsölunni umtalsvert og nauðsynlegt aðhald á markaði sem neytendur nutu góðs af með auknu vöruúrvali og lægra verði og ennfremur hærra mjólkurverði til bænda. Gögn málsins gefa hins vegar ekki til kynna að Mjólkursamsalan hafi farið út fyrir ramma samkeppnislaga. Þannig er ekki leitt í ljós að Mjólkursamsalan hafi með kerfisbundnum og skipulögðum aðgerðum reynt að útiloka keppinauta frá markaði með samkeppnishamlandi aðgerðum. Því er ekki tilefni til frekari aðgerða af hálfu Samkeppniseftirlitsins.
Bakgrunnsupplýsingar
Rannsókn málsins hófst með húsleit í júní 2007 þar sem lagt var hald á gögn og afrit tekin af tölvutækum gögnum. Stuttu síðar kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp úrskurð um að forstjóri Samkeppniseftirlitsins væri skylt að víkja sæti við meðferð stjórnsýslumálsins. Þeim dómi var áfrýjað af hálfu Samkeppniseftirlitsins og í apríl 2008 var Samkeppniseftirlitið sýknað af kröfu Mjólkursamsölunnar í Hæstarétti. Á meðan á þessum málarekstri stóð frestaði Samkeppniseftirlitið allri meðferð stjórnsýslumálsins og hófst því úrvinnsla gagna sem aflað var við húsleitina ekki fyrr en sumarið 2008. Við meðferð málsins aflaði Samkeppniseftirlitið jafnframt fjölmargra gagna frá tugum fyrirtækjum á markaði í rannsóknarskyni. Endanlegri gagnaöflun í málinu lauk í október 2009.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á meintri misnotkun Mjólkursamsölunnar ehf. á markaðsráðandi stöðu


back to top