Náttúruöflin gera vart við sig á Suðurlandi

Mikil úrkoma hefur verið á Suðurlandi að undanförnu og telja íbúar í uppsveitum Árnessýslu einsýnt að ár þar flæði yfir bakka sína en allir skurðir eru þegar orðnir fullir og vatn er að safnast upp við ármótin þar sem Stóra-Laxá, Litla-Laxá og Tungufljót renna í Hvítá að því er fram kemur á mbl.is. Í desember á síðasta ári varð mikið flóð á þessum slóðum, einnig vegna mikillar úrkomu.

Íris Brynja Georgsdóttir, bóndi í Auðsholti sagði við mbl.is, að þau hjónin væru að undirbúa að reka búfénað úr mýrunum vegna þess að einsýnt sé að þær fari brátt undir vatn. Hún sagðist reikna með því, að afleggjarinn heim að bænum yrði brátt ófær venjulegum fólksbílum.


Að sögn heimamanna hefur verið mikil úrkomutíð að undanförnu og síðasta sólarhring hefur rignt stanslaust. Hvítá er orðin foráttumikil og byrjað er að flæða inn á mýrarnar.


Þá hafa einir 15 jarðskjálftar orðið 2-3 km norður af Selfossi, eða undir Ingólfsfjalli, frá því klukkan rúmlega þrjú í nótt. Sá stærsti var kl. 12:05 og mældist hann 3,4 á Richter skv. vef Veðurstofu Íslands. Hann var reyndar nokkru vestar en hinir eða 5,2 km ASA af Hveragerði. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni eru skjálftar ekki fátíðir á þessum slóðum og ekki er talið að virknin nú sé fyrirboði náttúruhamfara.


back to top